Gríðarlegt tjón varð í eldsvoða á bænum Knerri í Snæfellsbæ í gærkvöld og brunnu hundruð fjár inni.

Eldurinn var tilkynntur klukkan 19.55 til lögreglunnar í Snæfellsbæ og var Slökkvilið Ólafsvíkurog Grundarfjarðar kvatt á vettvang. Aðgengi að vatni var mjög takmarkað og þurfti að sækja það um 1 km leið að næsta bæ. Ljóst var um klukkan 22.30 að ekki tækist að bjarga fjárhúsi, vélageymslu og hlöðu en áhersla var lögð á að bjarga íbúðarhúsinu.

 

Í fjárhúsinu voru um 600 fjár, einkum lömb sem átti að leiða til slátrunar og brunnu þau inni. Í vélageymslunni voru nýjar vélar og tæki sem urðu eldinum að bráð. Eldur logaði í heyi og varð bálið gríðarlegt að sögn varðstjóra. Engan mann sakaði þó.

Aðstæður til slökkvistarfs voru mjög slæmar vegna veðurs og réðst illa við eldinn. Vindhviður fóru í 50 metra á sekúndu og börðust um 20-30 slökkviliðsmenn við eldinn fram eftir kvöldi. Ekki liggur fyrir hvernig eldurinn kviknaði en hann kom upp í hlöðunni.

Slökkviliðsmenn hættu störfum upp úr hádegi í dag, en lögregla mun vakta svæðið áfram.

Frétt byggð á frétt mbl.is