Impra nýsköpunarmiðstöð hefur auglýst eftir þátttakendum í ráðgjafarverkefnið ,,Skrefi framar” og er umsóknarfrestur til 15. október 2004.

Verkefnið hefur verið auglýst í dagblöðum undanfarnar vikur og er gert ráð fyrir að það hefjist í byrjun nóvember. Verkefnið er opið fyrirtækjum í öllum starfsgreinum á landsbyggðinni.

 

 

Markmið með verkefninu er að auðvelda stjórnendum fyrirtækja að bæta rekstur og auka þekkingu innan fyrirtækjanna með utanaðkomandi ráðgjöf. Ráðgjöfin getur snúið að flestum þáttum í rekstri fyrirtækja svo sem:

· Fjármálastjórnun
· Greiningu á tækniþörf
· Kostnaðargreiningu
· Markaðsmálum
· Netviðskiptum
· Stefnumótun
· Umhverfismálum
· Vörustjórnun
· Öðrum þáttum í rekstri fyrirtækja, sem verkefnisstjórn telur að falli innan ramma verkefnisins.

Stjórn verkefnisins fer yfir allar umsóknir, metur þær og velur þau fyrirtæki sem hljóta styrk og ákveður upphæð styrks. Styrkur frá Impru til þátttökufyrirtækja getur numið allt að 50% af heildar ráðgjafarkostnaði eða frá kr. 100.000 til kr. 400.000 eftir umfangi hvers verkefnis.

Fyrirtækin velja sjálf hæfan ráðgjafa. Í samráði við verkefnisstjóra Impru mun fulltrúi viðkomandi fyrirtækis og ráðgjafinn stilla upp verk-, tíma- og kostnaðaráætlun fyrir verkefnið. Ráðgjafinn mun starfa með fyrirtækjunum uns verkefninu lýkur, en stefnt er að því ljúki innan 12 mánaða.

Bendum einnig á ráðgjafarverkefnið Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum.

Frekari upplýsingar og umsóknareyðublöð fyrir bæði verkefnin er að finna á slóðinni http://www.impra.is eða hjá verkefnisstjóra.