- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Skólastefna Grundarfjarðarbæjar var samþykkt í lok apríl og hefur henni verið dreift á öll heimili í sveitarfélaginu. Setning skólastefnu er mikilvægur áfangi í skólamálum en hún er sá grunnur sem skólarnir byggja starfsemi sína á.
Vinna við undirbúning að mótun heildstæðrar skólastefnu fyrir Grundarfjarðarbæ hófst af fullum krafti í september 2013. Gunnar Kristjánsson fyrrverandi skólastjóri, var ráðinn til að verkstýra ferlinu og kosin var stýrihópur af Bæjarstjórn.
Skólastefna Grundarfjarðarbæjar
Stýrihópinn skipuðu Ásthildur Erlingsdóttir formaður, Sigríður Arnardóttir en þær sitja báðar í skólanefnd, úr skólaumhverfinu voru kjörnar Anna Bergsdóttir skólastjóri Grunnskólans og Matthildur Soffía Guðmundsdóttir leikskólastjóri. Úr nærumhverfinu var kosinn Aðalsteinn Þorvaldsson sóknarprestur.
Verkefnisstjóri lagði fyrir stýrihóp tímasetta verkáætlun og hugmyndir um hvernig verkið skyldi unnið og var það samþykkt á fyrsta fundi stýrihóps þann 18. september 2013. Í verkáætluninni var gert ráð fyrir fundi með foreldrum, starfsfólki skólanna og nemendum. Á seinni stigum bættust við áform um fundi með foreldrum með erl. ríkisfang, einkum pólskt, fulltrúum atvinnulífs og bæjarstjórn. Fundir þessir voru ætlaðir til að fá fram viðhorf og væntingar til skólanna og voru þeir settir upp sem hópvinnufundir með spurningum um hlutverk, stöðu og framtíðarmarkmið skólanna sem og leiðir til að ná þeim markmiðum og óskað var eftir hugmyndum að leiðarljósum (gildum) fyrir skólastefnuna.
Fundur með foreldrum var haldinn í tengslum við aðalfund foreldrafélaga grunn- og leikskóla 8. október 2013. Fundur með starfsfólki grunn-leik- og tónlistarskóla þann 15. október. Fundur með nemendaráði var 31. október og í framhaldi af því í byrjun nóvember fór fram hópvinna meðal nemenda 5. – 10. bekkjar Grunnskólans. Um þá vinnu sá nemendaráð með aðstoð skólastjórnenda og kennara. Nemendur yngstu árganga í Grunnskólanum og elstu börnin í leikskóla fengu það hlutverk að tjá í myndmáli draumaskólann
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tókst ekki að koma á fundi eða fá fram skoðanir foreldra með erl. ríkisfang. Fundur með forsvarsmönnum atvinnulífs í Grundarfirði var boðaður og en þar mættu aðeins tveir svo þeim fundi var aflýst.
Verkefnisstjóri vann upp úr hópvinnusvörum samantekt á þeim svörum sem komu fram þrisvar eða oftar, og í framhaldi af því fyrstu drög að skólastefnu Grundarfjarðarbæjar og kynnti fyrir stýrihópi. Verkefnisstjóri kynnti stöðu verkefnisvinnunnar og drög að skólastefnu á fundi með skólanefnd og síðan í bæjarstjórn. Drög að skólastefnu eftir nokkra umfjöllun í stýrihópi fór síðan til umsagnar á vef Grundarfjarðarbæjar. Nokkrar athugasemdir bárust og komu þær að góðu gagni við fullnaðarmótun stefnunnar í stýrihópi. Tillaga að skólastefnu var síðan afgreidd til afgreiðslu í skólanefnd og að lokum í bæjarstjórn.
Öllum sem komu að vinnu við skólastefnuna eru færðar þakkir fyrir. Skólastefnuna má alltaf finna á vef Grundarfjarðarbæjar undir flipanum Stjórnsýsla-Stefnumótun.