- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á sameiginlegum fundi umhverfisnefndar og bæjarstjórnar Grundarfjarðar nú í kvöld fór fram umræða um skipulagsmál bæjarins. Tilefnið var fyrst og fremst að ræða um mögulega staðsetningu byggingar fyrir framhaldsskóla.
Eins og sagt hefur verið frá í bæjardagbók taka sveitarfélögin á norðanverðu Snæfellsnesi nú þátt í undirbúningi að stofnun framhaldsskóla á Nesinu, sem menntamálaráðuneytið stendur að.
Húsnæðismál skólans eru til umræðu í sérstakri ,,húsnæðisnefnd” sveitarfélaganna. Fram hefur komið af hálfu ríkisins að ekki stendur til að byggja nýtt húsnæði fyrir skólann, en ríkið er tilbúið að leigja húsnæði fyrir starfsemina. Sú hugmynd er nú til umræðu hvort sveitarfélögin muni standa að stofnun sérstaks félags um byggingu og rekstur húsnæðis sem leigt yrði undir starfsemi framhaldsskólans. Málið er á frumstigi ennþá og allmargir fyrirvarar enn á málinu.
Fundur umhverfisnefndar og bæjarstjórnar nú í kvöld var boðaður til að ræða um staðsetningu hugsanlegrar framhaldsskólabyggingar. Fundurinn var mjög gagnlegur og var málið reifað vítt og breitt. Farið var yfir kosti og galla nokkurra valkosta um staðsetningu og reyndu fundarmenn að gera sér í hugarlund hvernig þróun skipulagsmála, þar á meðal ,,miðbæjarstarfsemi”, yrði á komandi árum/áratugum.
Meirihluti fundarmanna var á þeirri skoðun, að hentugasta svæðið fyrir starfsemi framhaldsskóla væri á svokölluðu Jeratúni, lóðinni Sigurhæðum, við Grundargötu/Sæból, en það svæði er um 9360 m2 að stærð. Er þá gengið út frá sjónarmiðum eins og t.d. þeim að starfsemi framhaldsskóla eigi vel heima í miðbæ og geti styrkt miðbæjarstarfsemi ýmiss konar, að slíka starfsemi eigi ekki að ,,fela” í jaðri byggðar, að hún eigi ekki augljósa samleið með t.d. starfsemi á svæði grunnskóla, o.fl.
Hinsvegar kom jafnframt fram að fundarmenn vilja sjá góða nýtingu á umræddu svæði, með framtíðarstækkunarmöguleika skólans í huga og aðra starfsemi sem vel gæti átt heima í nágrenninu.