- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Eins og fram hefur komið á bæjarvefnum er í gangi undirbúningur fyrir siglingakeppnina Skippers D´Islande 2006, en keppnisleiðin er: Paimpol - Reykjavík - Grundarfjörður – Paimpol.
Áhugamenn standa að keppninni, m.a. siglingaklúbburinn í Paimpol á Bretagne-skaga í Frakklandi. Siglingaklúbburinn Brokey í Reykjavík leggur þeim lið með undirbúning hér heima.
Við sýningarbás Bretagne á bátasýningunni í París: Frá vinstri Emile Poidevin, formaður Skippers d'Islande, Elisabeth Steffan frá Icelandair skrifstofunni í París, varaforseti Conseil général des Côtes d'Armor á Bretagne, Michel Morin frkvstjóri keppninnar, Björg bæjarstjóri, Jean-Paul Pochard borgarstjóri Paimpol, Finnbogi Rútur Arnarson sendifulltrúi í íslenska sendiráðinu í París, Elisabeth Amos, ritari formanns Skippers og Ágúst Ágústsson markaðsstjóri Faxaflóahafna sf. |
Keppnin verður haldin í þriðja sinn sumarið 2006 og er Grundarfjörður í fyrsta sinn sérstakur áfangastaður á keppnisleiðinni. Er það vel við hæfi, enda er Paimpol vinabær Grundarfjarðar.
Í byrjun desember var haldin stór bátasýning í París, "45 Salon Nautique de Paris". Á blaðamannafundi sem haldinn var á bás Bretagne-skaga á sýningunni var keppnin kynnt formlega. Fjölmiðlafólk, keppendur og aðstandendur keppninnar fjölmenntu til fundarins og upplýst var að nú þegar hefðu 18 skútur verið skráðar í keppnina.
Ræst verður frá Paimpol þann 24. júní 2006, en áætlað að keppendur verði í Grundarfirði í kringum 9. júlí og dvelji hér í 3-4 daga. Með fylgir hópur Frakka og er búist við að á annað hundrað manns heimsæki okkur.
Skippers D´Islande - keppnin er haldin þriðja hvert ár. Hún var fyrst haldin árið 2000 og luku þá 10 þátttakendur keppni og árið 2003 náðu 11 skútur endamarki.
Keppnin er haldin til minningar um Íslandsveiðar Frakka, um frönsku sjómennina sem komu svo þúsundum skipti til Íslands mest alla 19. öldina til þorskveiða.
Faxaflóahafnir sf., Grundarfjarðabær og Grundarfjarðarhöfn, ásamt Reykjavíkurborg styrkja keppnina og auk þess hefur stuðnings verið leitað hjá fyrirtækjum í Frakklandi og á Íslandi. Ber þar ekki síst að nefna Icelandair sem stutt hefur þetta framtak vel frá upphafi.
Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri var viðstödd fjölmiðlafund Skippers d´Islande í París þann 6. desember sl. og flutti þar stutt ávarp. Ágúst Ágústsson markaðsstjóri Faxaflóahafna sf. var ennfremur ,,fulltrúi Íslands” á sýningunni.