Miklar annir voru hjá Hafsteini hafnarverði Grundarfjarðarhafnar í dag. Um sexleytið í morgun lagðist fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins að stóru bryggju og fyrir hádegi var einnig mætt olíuskipið Kyndill, auk heimaskipa sem komin voru inn til löndunar.

 

Það var skemmtiferðaskipið Funchal sem átti hér viðkomu til kl. 14 í dag, með 448 farþega innanborðs, mestmegnis Breta. Funchal er um 153 metrar að lengd og meðan það lá við bryggju beið olíuskipið Kyndill þess á ytri höfninni að geta lagst að bryggju.

 

Móttöku- og kveðjuathöfn var fyrir gesti skipsins, sem einnig urðu fyrstu gestirnir í upplýsingamiðstöð Sögumiðstöðvar sem vígð var síðar um daginn.

Á vegum Grundarfjarðarhafnar hafa þær Shelagh og Johanna í Detours séð um undirbúning að móttöku farþega, en þær fóru einmitt með um 150 farþega Funchal í ,,village walk" - þorpsgöngu í dag. Í Grundarfjarðarkirkju var organistinn Friðrik V. Stefánsson svo með tónleika fyrir gesti og gangandi.