- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á fundi bæjarstjórnar sem lauk upp úr kl. 21.00 í kvöld var, eftir umræður um málið, samþykkt eftirfarandi ályktun bæjarstjórnar um ástand og horfur í skelfiskveiðum í Breiðafirði;
Bæjarstjórn Grundarfjarðar lýsir þungum áhyggjum af ástandi og horfum í skelfiskveiðum í Breiðafirði og þeim neikvæðu áhrifum sem verulegur samdráttur eða alger lokun á veiðar skelfisks hefur á rekstur fyrirtækja sem byggja á veiðum og vinnslu skelfisks og á samfélagið allt.
Minnt er á að skelveiðarnar og -vinnslan skipta grundfirskt samfélag gríðarmiklu máli. Ekkert má á skorta í rannsóknum á skelfiskstofninum og nauðsynlegt er að hraða niðurstöðum rannsókna eftir því sem kostur er. Taka verður af festu á afleiðingum slæms ástands stofnsins með hliðsjón af hagsmunum samfélagsins.
Bæjarstjórn lýsir yfir stuðningi við óskir fyrirtækja í veiðum og vinnslu á staðnum um uppbætur á kvóta sem unninn verði í Grundarfirði vegna orðinnar og hugsanlegrar frekari skerðingar á aflaheimildum vegna þessa viðkvæma ástands skelfiskstofnsins.
Ályktunin verður send sjávarútvegsráðherra, sjávarútvegsnefnd Alþingis, þingmönnum o.fl. ásamt greinargerð sem með fylgdi.
Bent er á bæjardagbók þann 28. janúar 2003 um sama mál.