- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Mynd Marta Magnúsdóttir
Stutt ferðasaga frá Aðalsteini Þorvaldssyni:
Eftir talsverðan aðdraganda og undibúning fararstjórnar og foreldra kom loksins dagurinn, 14. júlí sl., að haldið var af stað á skátamót á Úlfljótsvatni. Síðustu skilaboð til skátanna fyrir ferðina frá fararstjórum var að vera "tilbúnir í bátana" við komuna á mótið og ekki vanþörf á. Rigning og rok fyrstu tvo dagana tók sannarlega toll af öllum en skátarnir sigldu í gegnum hverja áskorunina af annarri eins og að drekka vatn.
Það virtist ekkert deyfa eftirvæntingu skátanna og þau tóku þátt í allri dagskrá mótsins með bros á vör, skelltu sér í vatnasafarí í 7°C hita og rigningu og bara hlógu að veðrinu. Grundfirðingar eru nú vanir ansi válegum veðrum en að skátanir stæðu á brókinni einni fata í slagviðri var nú ekki það sem fararstjórar bjuggust við. Örugglega 70 metrar af þurrksnúrum voru settar upp og rétt náðu að halda í við krakkana. Hitablásarar gengu nánast allan sólarhringinn og var orkunotkun á pari við fjölbýlishús í Breiðholti.
Fyrstu tveir dagarnir voru yndislegt kaos af spenningi og lærdómi um tjaldbúðalíf. Foreldrar héldu vel utan um hópinn og aðstoðuðu og hjálpuðu skátunum að gera sjálf og standa á eigin fótum. Allt gekk þetta eins og í sögu og sérstaklega þegar við hættum að hafa áhyggjur af því að eldhústjaldið myndi fjúka í burtu en það gerist þegar 5 tonna strappi er kominn yfir þakið.
Veðrið batnaði og góð lund varð enn betri. Allir urðu sjóaðri í öllum verkum og allt varð auðveldara. Fararstjórar eru þeirrar skoðunar að allir skátarnir hafi stækkað um nokkur númer í þessari ferð og hlökkum til þeirrar næstu með frábærum hóp sem getur allt sem að hugur hans og hjarta stefnir að.
Með þökkum,
Fararstjórn