Sjóræningjar stíga á land í Grundarfirði

Það voru margvísleg ævintýrin sem urðu til á sagnanámskeiðum nemenda úr 5. og 6. bekk Grunnskóla Grundarfjarðar.  Sjóræningjar stigu á land í Grundarfirði og strákurinn sem enginn vildi vera með, bjargaði öllu og náði fjársjóðnum frá þeim. 

Galdramaður á eldfjallaeyju fékk óvænta hjálp frá ofur klárri sveitastelpu þegar hann var farinn að gleyma galdraþulunum sínum og súper – djöfull á mótorhjóli reyndist hafa gott hjarta. 

Allt þetta og meira til gerðist í sögum sem krakkarnir bjuggu til á námskeiðunum sem haldin voru á vegum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur og Eyrbyggju-Sögumiðstöðvar, í samvinnu við Grunnskólann og með styrk frá Menningarráði Vesturlands.  Auk Sigurborgar var Ingi Hans Jónsson leiðbeinandi á námskeiðunum.

Á námskeiðunum bjó hvor hópur til sína eigin sögu, sögupersónur voru mótaðar úr leir um leið og þær urðu til og litríkt og glæsilegt sögusvið var gert úr pappa.  Í lok námskeiðs buðu þátttakendur fjölskyldu sinni og kennurum á sagnakvöld.  Þar var sagan þeirra sögð með virkri þátttöku þeirra og þau fluttu nokkur íslensk lög með hrynhljóðfærum, allt frá alvöru afrískum trommum til heimatilbúinna hrista úr glerkrukkum og hrísgrjónum.

í lokin fengu þátttakendur svo viðurkenningarskjöl og það voru alsælir krakkar og stoltir foreldrar og kennarar sem kvöddu Sögumiðstöðina eftir sagnakvöldið.

Að sama skapi voru leiðbeinendurnir ánægðir með hvernig til tókst, enda stóðu krakkarnir sig frábærlega. 

 

Hvað með framhald....að hverju er stefnt....?

Mynd