Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Sjómannadagur 2024

 

Þann 2. júní sl. var Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur og náðu hátíðarhöld í Grundarfirði reyndar yfir alla helgina og rúmlega það.

Á fimmtudegi var Skotfélag Snæfellsness með sjómannadagsmót í leirdúfuskotfimi. Sjá nánar hér á FB síðu félagsins. 

Á föstudeginum bauð UMFG krökkum í íþróttahúsið þar sem Íþróttaálfurinn kom í heimsókn. Síðan var árlegt golfmót Guðmundar Runólfssonar ehf. þar sem um 48 manns tóku þátt og tókst mjög vel.

Laugardagurinn byrjaði á krakkasprelli í Vélsmiðju Grundarfjarðar en þar voru hoppukastalar fyrir börnin, síðan sigling út fjörðinn, hátíðardagskrá á hafnarsvæðinu og endað á blakleik á milli sjómanna og sjómannskvenna, systra, dætra og annara þar sem konurnar fóru með sigur úr býtum í þetta skiptið.

Á sunnudeginum var Leikhópurinn Lotta með sýningu í íþróttahúsinu og svo var sjómannamessa í Grundarfjarðarkirkju þar sem bræðurnir Ingi Þór og Páll Guðfinnur Guðmundssynir voru heiðraðir ásamt eiginkonum sínum, þeim Hjördísi Hlíðkvist Bjarnadóttur og Guðbjörgu Hringsdóttur. Eftir messu var Kvenfélagið Gleym mér ei með kökubasar í samkomuhúsinu. 

Sjómannadagsráð Grundarfjarðar vill þakka öllum þeim fyrirtækjum sem styrktu hátíðina í ár, kærlega fyrir sitt framlag og öðrum þeim sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd dagskrárinnar. 

 

Grundarfjarðarbær vill einnig nota tækifærið og þakka Sjómannadagsráði Grundarfjarðar fyrir undirbúning og umsjón með glæsilegri hátíðardagskrá um helgina! 

Myndir og fleiri fréttir frá helginni má sjá á Facebook-síðu Sjómannadagsins í Grundarfirði