- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í morgun kl. 8.15 hélt sjávarútvegsnefnd Alþingis fund í Reykjavík um stöðu skelfiskveiða í Breiðafirði og rannsóknir á skelfiski.
Til upprifjunar má nefna eftirfarandi. Á fiskveiðiárinu 2000-2001 var úthlutað tæplega 1715 tonnum af hörpuskel til fyrirtækja/útgerða í Grundarfirði. Árið 2001-2002 var úthlutunin rúm 1393 tonn og árið 2002-2003 var úthlutunin komin niður í 857,4 tonn. Skerðingin á tveimur árum er skv. þessu 50%.
Horfur komandi fiskveiðiárs 2003-2004 eru enn dekkri. Skv. upplýsingum úr sjávarútvegsráðuneytinu verður ekki úthlutað aflamarki í hörpuskel fyrr en niðurstöður liggja fyrir úr rannsóknum á árinu 2003. Ætlunin er að skip fari til rannsókna í apríl og aftur í september 2003 og að fyrst eftir að þær niðurstöður liggja fyrir verði tekin ákvörðun um skelveiðarnar. Ljóst er því að úthlutun mun ekki liggja fyrir við upphaf komandi fiskveiðiárs og að vertíðin mun ekki hefjast þann 1. september eins og fyrri ár. Hugmyndum hefur m.a. verið varpað á loft um að engar veiðar fari fram á því ári, en það verður að koma í ljós.
Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í að tíunda hvaða áhrif svo mikil skerðing og samdráttur í veiðum og vinnslu einnar tegundar hefur á atvinnulíf staðar eins og Grundarfjarðar. Eins og alkunna er þá er hörpuskel nánast alfarið unnin á Snæfellsnesi og allur landaður afli er unninn á stöðunum. Grundarfjörður er því eitt tveggja byggðarlaga á landinu þar sem veiðar og vinnsla byggja að svo miklu leyti á skelveiðunum sem raun ber vitni.
Sjávarútvegsnefnd hafði óskað eftir því að fá á fundinn til sín fulltrúa skelfiskvinnslu og –veiða hér í Breiðafirði, auk fulltrúa bæjarins/bæjarstjórnar. Á fundinn fóru fimm fulltrúar Grundfirðinga, þar af tveir bæjarfulltrúar, auk fulltrúa úr Stykkishólmi, og hafa þeir væntanlega komið sjónarmiðum fyrirtækja sinna og byggðarlaga vel á framfæri.