- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á morgun, laugardaginn 3. maí, verða grundfirskir listamenn á faraldsfæti. Sönghópurinn ,,Sex í sveit" mun syngja á sýningunni ,,Ferðatorg 2003” í Smáralind kl. 13.00 og kl. 15.40.
Þeim sex-sveitungum er þetta mikill heiður en þeir verða þarna sem fulltrúar Vesturlands á sýningunni. Þeir munu kynna hljómdisk sinn og syngja lög af honum.
Á sýningunni verða einnig atriði frá öðrum landshlutum.
Á vefnum www.smaralind.is er að finna eftirfarandi kynningu;
Sýningin Ferðatorg 2003 verður haldin í Vetrargarðinum í Smáralind um komandi helgi 2.-4. maí nk.
Ferðatorginu er ætlað að vera markaðstorg ferðaþjónustu á Íslandi þar sem einstaklingar og fyrirtæki eiga að geta fundið alla þá margbreytilegu ferðamöguleika sem í boði eru á ævintýralandinu Íslandi. Þarna gefst því fólki möguleiki á að skipuleggja sumarfrí sitt á markvissan hátt og kynnast nýjungum sem og gullmolum í ferðaþjónustu um leið og boðið verður uppá fjölbreytta dagskrá skemmtiatriða frá öllum héruðum landsins. Þetta er í annað sinn sem sýningin er haldin en í fyrra heimsóttu hana yfir 20.000 manns og þykir sýnt að þessi viðburður er kominn til að vera.
Að sýningunni standa Ferðamálasamtök Íslands með góðum stuðningi samgönguráðuneytisins. Innan Ferðamálasamtakanna eru átta landshlutafélög sem öll taka þátt í sýningunni. Aðrir sýnendur eru Flugfélag Íslands, Bandalag íslenskra farfugla, Landmælingar Íslands, Ferðaþjónusta bænda, Umhverfisstofnun, Vegagerðin, UMFÍ og Landsvirkjun.
Skipulag og framkvæmd Ferðatorgsins 2003 er í höndum Sýninga ehf., KOM ehf. og Samskipta ehf. í samvinnu við Ferðamálasamtök Íslands.