- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Sönghópurinn Sex í sveit frá Grundarfirði verður með söngskemmtun á vetrarhátíð Reykvíkinga sem haldin er nú í þriðja sinn dagana 19. – 22. febrúar.
Sönghópurinn ásamt undirleikara og stjórnanda Friðriki Vigni Stefánssyni mun koma fram á sérstakri árbæjarhátíð vetrarhátíðarinnar sunnudaginn 22. febrúar nk. kl 13.30 og verður hún haldin í hinu nýja húsi Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1.
Á efniskrá verður alþýðutónlist úr ýmsum áttum, bæði gömul og ný. Mörg laganna eru alveg ný á efnisskrá sönghópsins og verður því um frumflutning að ræða á þeim lögum.
Sönghópurinn hefur starfað í 7 ár og haldið tónleika á Snæfellsnesi, Vesturlandi, Reykjavík og síðast í Reykholtskirkju í Borgarfirði. Sex í sveit gaf út geisladiskinn "Á lygnu kvöldi" sumarið 2002 og stefnir að útgáfu á nýjum geisladiski síðar á þessu ári.
Sem fyrr segir eru tónleikar Sex í sveit í sal Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, sunnudaginn 22. febrúar kl. 13.30 og er aðgangur ókeypis og öllum heimill. Tilvalið er að nota tækifærið til að skoða í leiðinni hið nýja hús Orkuveitunnar.