Nokkur helstu sjávarútvegsfyrirtæki í Grundarfirði, Grundarfjarðarbær og Grundarfjarðarhöfn, hafa tekið höndum saman um verkefni þar sem ætlunin er að meta stöðu og mögulegar lausnir varðandi umhverfismál fyrirtækjanna. Meistaranemendur frá Alþjóðlegu umhverfisstofnuninni við Lundarháskóla eru nú á vorönninni að vinna verkefni með fyrirtækjunum og munu fjórir nemendur ásamt kennara vera í Grundarfirði í lok mars.  Sérstaklega er horft á fráveitumál og lífrænan úrgang frá sjávarútvegsfyrirtækjunum, m.t.t. mismunandi kosta.

 

Frá vinstri: Kristín Árnadóttir, SSV, Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta, Runólfur Guðmundsson og Guðmundur Smári Guðmundsson, Guðmundi Runólfssyni hf., Jóhann Ragnarsson, FISK-Seafood, Þórður Magnússon, Djúpakletti ehf., Jökull Helgason, Grundarfjarðarbæ, Björg Ágústsdóttir, Grundarfjarðarhöfn, Sigurborg Kr. Hannesdóttir, Alta.

 

Þau fyrirtæki sem aðild eiga að verkefninu eru Djúpiklettur ehf., Fisk – Seafood hf., Guðmundur Runólfsson hf., Soffanías Cecilsson hf. og Sægarpur ehf.

Grundarfjarðarbær og Grundarfjarðarhöfn eru einnig samstarfsaðilar eins og fram hefur komið.  Ráðgjafarfyrirtækið Alta tekur þátt í mótun verkefnisins og átti að því frumkvæði.  SSV þróun og ráðgjöf leggja einnig til aðstoð starfsmanns við verkefnið. 

Metnaður og sameiginleg sýn

Verkefnið byggir á þeim skilningi að umhverfismálin eru sameiginlegt verkefni.  Grundarfjörður er leiðandi byggðarlag á Vesturlandi á sviði sjávarútvegs og hafnaraðstöðu og eiga heimamenn þá metnaðarfullu sýn að hér verði öll umgengni um auðlindir sjávar til fyrirmyndar.  Verkefnið er liður í því að Grundarfjörður feti sig áfram á þeirri braut. 

Kveðja fyrir hönd samstarfsaðila,

Sigurborg Kr. Hannesdóttir, verkefnisstjóri