- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fæðingarhátíð lags Grundfirðinga „Í góðu veðri á Grundarfirði“
Formáli:
Grundarfjörður hefur átt stóran stað í huga og hjörtum fjölskyldu Valgeirs til margra ára.
Einn fagran sumardag renndi Valgeir með fjölskyldunni inn í fjörðinn undir björtum himni og glampandi sól. Kirkjufellið virtist hneigja sig fyrir speglandi sjávarfletinum og komu litlu fjölskyldunnar. Um leið og Valgeir var kominn í bústað utan við bæinn þar sem lækir seitluðu og börnin busluðu, settist hann á veröndina og inn seitlaði lag og texti sem fékk nafnið „ Í góðu veðri á Grundafirði“. Eftir að hafa flutt lagið til margra ára var tími til kominn að koma því heim til sín. Bæjarfélagið ákvað að styðja við upptöku í hljóðveri og finna fallegt tækifæri til að fá skáldið í heimsókn til að flytja lagið á sínum heimavelli.
Á tónleikum Valgeirs Guðjónssonar sunnudaginn 14. október í Grundarfjarðarkirkju, mun kórinn syngja lagið með Valgeiri og dóttur sinni Vigdísi Völu sem söng líka með honum í upptöku lagsins. Sem sagt einskonar fæðingarhátíð lags Grundfirðinga. Tónleikarnir eru hluti af dagskrá Rökkurdaga.
Á tónleikun sem verða um klukkustunda langir mun Valgeir jafnframt flytja lög úr sínum stóra lagabáli sem margir þekkja og jafnvel kunna. Tónleikarnir eru hugsaðir fyrir börn á öllum aldri með lögum sem ættu að kæta jafnt þau sem eru yngri og þau börn sem komin eru til ára sinna.