- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Haustið er huggulegur tími, við hægjum taktinn eftir bjart og viðburðaríkt sumar og búum okkur undir veturinn.
Eins og undanfarin ár efnir menningarnefnd Grundarfjarðarbæjar til Rökkurdaga, menningarhátíðar Grundfirðinga. Nefndin leitaði til íbúa um framlag og leggja fjölmargir bæjarbúar sitt af mörkum til skemmtilegrar dagskrár.
Dagskráin hefst laugardaginn 28. október nk. og í ár er leitast við að dreifa dagskrárliðum yfir lengra tímabil en áður, eða til 12. nóvember nk. Með því ætti að vera auðveldara fyrir bæjarbúa og gesti þeirra að mæta og njóta fleiri viðburða.
Meðal þess sem verður í boði er leiðsögn við luktagerð, farið verður í ljósagöngu á vegum Krabbameinsfélags Grundarfjarðar, okkur er boðið inná söngæfingu hjá Karlakórnum Kára, listsýning og örtónleikar verða hluti af menningarefni Rökkurdaga, við fáum að kynnast borðspilinu TAC og unglingastig Grunnskólans býður á bingó, svo eitthvað sé nefnt.
Molakaffi á miðvikudögum verður í sparibúningi, Skotgrund – Skotfélag Snæfellsness verður með opið hús, íbúum verður boðið til huggulegrar miðnæturopnunar í Sundlauginni og slegið verður í gott hundapartý!
Ýmsir viðburðir verða á vegum fyrirtækja í bænum – Veturnóttablót á Bjargarsteini, Ljósagangur fyrir börn og Rithöfundakvöld á Græna kompaníinu og Halloween ball á Kaffi 59. Hrekkjavökuviðburðir falla innan tímaramma Rökkurdaga, sömuleiðis messa og ball!
Verið er að leggja lokahönd á dagskrána og verður hún borin í hús á fimmtudaginn kemur.
Tökum þátt og njótum – saman!
Menningarnefnd Grundarfjarðarbæjar