- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Menningarhátíðin Rökkurdagar er nú haldin í fimmtánda sinn í Grundarfirði og stendur að þessu sinni yfir dagana 12.- 22. október. Hátíðin hefst á þeim ánægjulega viðburði að ljósmyndavefurinn www. baeringsstofa.is verður opnaður með viðhöfn í Bæringsstofu og er þar með langþráður draumur bæjarbúa að verða að veruleika.
Lifandi tónlist verður áberandi í dagskránni í ár og tónleikar víða í bænum en auk þess verður spilað, galdrað, grínað og ýmislegt fleira sem vonandi höfðar til sem allra flestra. Sú nýjung er á hátíðinni nú að hún er liður í Opnum Október, sem er sameiginlegt verkefni allra sveitarfélaganna á Snæfellsnesi, undir stjórn Svæðisgarðsins Snæfellsnes. Tilgangur Opins Október er að vekja okkur til vitundar um hversu mikil nálægðin er milli sveitarfélaganna fimm, sem öll eru með einhverja viðburði í þessum mánuði og falla undir Opinn Október. Það er því von aðstandenda Opins Október að íbúar Snæfellsness verði duglegir að fara á milli staða til að sækja þá viðburði sem þeir hafa áhuga á.