- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Næstkomandi laugardag, 17. september verður réttað í fyrsta sinn í nýrri rétt í Kolgrafafirði. Réttin er í landi Hrafnkelsstaða og nefnist Hrafnkelsstaðarétt.
Vígsluathöfn hefst klukkan 16 og í beinu framhaldi af vígslunni hefjast réttirnar. Hrafnkelsstaðarétt var smíðuð af sjálboðaliðum úr Búnaðarfélagi Eyrarsveitar og starfsmönnum Grundarfjarðarbæjar. Smíðin gekk hratt og vel fyrir sig enda harðduglegt fólk þarna á ferð.
Segja má að Hrafnkelsstaðarétt leysi af hólmi Grundarrétt í Grundarbotni þó þar hafi ekki verið réttað svo árum skipti. Undanfarin á hefur þess í stað verið réttað á Hömrum.
Hallur Pálsson, formaður Búnaðarfélags Eyrarsveitar, segir alla velkomna í réttir á laugardaginn og vonast eftir að sjá sem allra flesta. Búnaðarfélag Eyrarsveitar mun bjóða upp á kjötsúpu og kaffi í húsnæði Skotgrundar skammt frá nýju réttinni.
Fjölmennum í réttir og sköpum alvöru réttarstemmningu!