- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Ragnar Vilberg Elbergsson var kjörinn sveitarstjórnarfulltrúi í Grundarfirði árin 1978-2002. Hann sat í hreppsnefnd Eyrarsveitar í samtals 24 ár.
Ragnar var fæddur í Grundarfirði 25. febrúar 1946. Hann lést þann 20. janúar sl., rétt tæplega 78 ára að aldri. Útför hans fór fram frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 29. janúar 2024.
Eftirfarandi eru minningarorð og kveðja frá Grundarfjarðarbæ.
---
Ragnar Elbergsson var fyrst kjörinn til setu í hreppsnefnd Eyrarsveitar árið 1978, þá 32 ára gamall. Hann hafði reyndar skipt sér mun lengur af pólitík eða allt frá því hann var rúmlega tvítugur, eins og hann sagði sjálfur frá í viðtali í Þjóðviljanum 28. október 1982. Ragnar var einarður Alþýðubandalagsmaður og sat sem fulltrúi G-lista í hreppsnefnd Eyrarsveitar allan sinn tíma þar, en þegar breytingar urðu í hinu pólitíska landslagi og til varð Vinstri hreyfingin – grænt framboð árið 1999 (nú Vinstri græn), gekk Ragnar til liðs við hreyfinguna. Umfram allt annað var Ragnar þó Grundfirðingur fram í fingurgóma og vildi byggðinni sinni og samfélagi ávallt það besta.
Seta í sveitarstjórn og skipan sveitarstjórna
Árið 1974 hafði Ragnar skipað þriðja sætið á framboðslista Alþýðubandalagsins í Grundarfirði, sem náði þá inn einum manni, Sigurði Lárussyni, en næstir voru Ólafur Guðmundsson og svo Ragnar.
Árið 1978 var Ragnar í fyrsta sæti á framboðslista Alþýðubandalagsins og var þá kjörinn í fyrsta sinn í hreppsnefnd Eyrarsveitar. Í þeim kosningum urðu nokkur kynslóðaskipti, frá því sem verið hafði. Árni Emilsson (D) sem hafði þá verið sveitarstjóri frá 1970 tók í fyrsta sinn sæti á lista ásamt þeim Sigríði Önnu Þórðardóttur (D), fyrstu konunni sem kjörin var í hreppsnefndina, og Runólfi Guðmundssyni (D), en öll voru þau ný inn, rétt um og yfir þrítugt. Auk þeirra var Hjálmar Gunnarsson (B) sömuleiðis nýr inn í sveitarstjórn.
Árið 1982 varð Ragnar oddviti hreppsnefndar, þegar Alþýðubandalagið tók upp meirihlutasamstarf við Framsókn. Elísabet Árnadóttir kom ný inn á lista Alþýðubandalagsins og Guðni E. Hallgrímsson var fulltrúi Framsóknar. Árni Emils og Sigríður Anna (D) voru áfram kjörin, en nýr sveitarstjóri var ráðinn Sigurður Eggertsson.
Árið 1986 leiddi Ragnar enn G-listann og var kjörinn áfram, eins og þau Sigríður Anna (D) og Árni Emils (D), sem hvarf reyndar til annarra starfa og sat ekki út kjörtímabilið. Kristján Guðmundsson (D) og Gunnar Kristjánsson (B) komu nýir inn. Sveitarstjóri var ráðinn Ólafur Hilmar Sverrisson.
Árið 1990 var Ólafur Guðmundsson oddviti G-listans en Ragnar skipaði annað sæti. Auk þeirra voru kjörnir þeir Kristján Guðmundsson (D), Ásgeir Valdimarsson (D) og Friðgeir V. Hjaltalín (B) sem mynduðu meirihluta og réðu Magnús Stefánsson sem sveitarstjóra.
Árið 1994 var kjörnum fulltrúum fjölgað úr fimm í sjö. Ragnar skipaði fyrsta sæti framboðslista Alþýðubandalagsins, Ólafur Guðmundsson var í öðru sæti og Kolbrún Reynisdóttir í þriðja. Aðrir í sveitarstjórn voru Kristján Guðmundsson (D), Friðgeir V. Hjaltalín (B), Árni Halldórsson (D) og Guðni E. Hallgrímsson (B). Magnús var áfram sveitarstjóri í eitt ár en var svo kosinn á Alþingi 1995 og við tók Björg Ágústsdóttir sem sveitarstjóri/bæjarstjóri til 2006.
Árið 1998 var Ragnar enn í fyrsta sæti á framboðslista Alþýðubandalagsins og Emil Sigurðsson í öðru sæti. Sigríður Finsen, Þorsteinn Friðfinnsson og Marvin Ívarsson (D) voru kjörin inn, sem og Guðni Hallgrímsson og Gunnar Jóhann Elísson (B).
Árið 2002 varð Eyrarsveit að Grundarfjarðarbæ. Ennfremur urðu breytingar á listum í framboði. V-listi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs bauð í fyrsta skipti fram og tók Ragnar þriðja sætið. Á 21. fundi bæjarstjórnar þann 6. júní 2002 var Ragnari þakkað fyrir 24 ára starf í þágu sveitarfélagsins, með samfelldri setu í sveitarstjórn.
Þingseta
Ragnar Elbergsson var varaþingmaður Vesturlands og tók sæti á Alþingi sem slíkur í nóvember-desember 1993 og í október 1994, og þá að sjálfsögðu fyrir Alþýðubandalagið. Hér má heyra Ragnar í umræðum þingsins og er umfjöllunarefnið steinsteypa til slitlagsgerðar, íslenskur iðnaður o.fl. Án efa naut varaþingmaðurinn þekkingar og reynslu sinnar af sveitarstjórnarmálum, þegar kom að þingstörfum, umræðum þingsins og landsmálunum almennt.
Fjölskylda
Ragnar var næstyngstur tíu systkina. Foreldrar hans voru Elberg Guðmundsson sjómaður og kona hans Ásgerður Guðmundsdóttir húsmóðir. Ragnar giftist Matthildi Guðmundsdóttur frá Stykkishólmi og voru þau einstaklega samrýnd hjón. Raggi og Matta eignuðust þrjú börn; Ásberg, sem dó af slysförum barn að aldri, Guðmundu sem býr í Helgafellssveit með fjölskyldu sinni og Ragnar Börk, sem býr í Grundarfirði með sinni fjölskyldu. Fyrir átti Ragnar soninn Ingimar, en hann býr í Hrísey.
Ragnar var einlægur fótboltaáhugamaður, hafði spilað fótbolta sjálfur á sínum yngri árum og verið vel liðtækur í íþróttinni. Á fundum og mannamótum á vettvangi sveitarstjórnarmála var iðulega við hæfi að ræða boltafréttir við Ragnar, svona í framhjáhlaupi, og þá helst um það hvernig uppáhaldsliðinu hans, Liverpool, gengi í það og það skiptið.
Verkefnin í sveitarstjórn
Verkefni sveitarfélagsins á 24 árum voru afar fjölbreytt og þörfin oft brýn fyrir umbætur. Tímabil mikils uppgangs, fólksfjölgunar og umhverfisumbóta, en sömuleiðis tímabil óðaverðbólgu með afar þröngum fjárhag.
Sjöundi áratugurinn einkenndist af mikilli fólksfjölgun, eflingu útgerðar með tilheyrandi hafnarbótum, byggingu barnaskóla, íbúðarhúsnæðis o.fl. Áttundi áratugurinn varð mesta húsbyggingartímabil í sögu byggðarinnar, með yfir sjötíu nýjum íbúðarbyggingum. Þá stækkuðu Grundfirðingar grunnskólann og stofnuðu tónlistarskóla, byggðu Suðurgarð Grundarfjarðarhafnar, byggðu sundlaug og lögðu slitlag á götur.
Í þá daga var pólitíkin öðruvísi og flokkslínur að mörgu leyti skarpari. Það var tekist á um málefnin, einkum um forgangsröðun og greinilegt er að þröngur fjárhagur og óðaverðbólga gerði alla hluti svo miklu erfiðari. Ragnar var ekki skaplaus sem ungur maður og gat látið finna fyrir sér ef svo bar undir. Samstarfsfólki Ragnars í sveitarstjórnum í gegnum tíðina ber saman um að þrátt fyrir að tekist hafi verið á um málefni sveitarfélagsins, sem einkum tíðkaðist á fyrri árunum, þá hafi sveitarstjórnin ávallt staðið saman út á við.
Ragnar var vandvirkur sveitarstjórnarmaður og samviskusamur, hann las vandlega gögn og kynnti sér málin vel, hann hrapaði ekki að niðurstöðum heldur tók mikilvægar ákvarðanir að vel ígrunduðu máli. Sagt var, að hann geymdi allar fundargerðir og gögn heima í möppum, langt aftur í tímann. Hvort það var nú fyllilega rétt eða ekki, þá var það að minnsta kosti þannig að Ragnar var skipulagður í störfum sínum og minnugur mjög. Iðulega rifjaði hann upp málefni og sögur og setti í samhengi við viðfangsefni nútímans. Sem kjörinn fulltrúi sitjandi í minnihluta, þegar svo fór, þá sinnti hann sínu hlutverki vel og hélt sveitarstjórninni við efnið – spurði og gekk eftir málum.
Samstarfsfólki hans ber ennfremur saman um að Ragnar hafi verið hreinskiptinn. Og þó ekki væri um samherja að ræða, sem alltaf væru sammála, þá vissi fólk hvar það hefði manninn, eins og sagt er, og það er mikils virði í pólitík.
Fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar færi ég fjölskyldu og ástvinum samúðarkveðjur.
Hinstu kveðju og virðingu vottar bæjarstjórn Ragnari Elbergssyni, með þakklæti fyrir óeigingjarnt starf og framlag í þágu byggðar og samfélags.
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri
Myndir sem hér fylgja eru úr safni Bærings Cecilssonar, teknar saman af Olgu S. Aðalsteinsdóttur.
Smellið á myndirnar til að stækka þær og lesa myndatexta. Fleiri myndir munu birtast í Sjöu vikunnar hér.