- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Þann 14. – 15. febrúar fóru 21 af meðlimum Pjakks unglingadeildar björgunarsveitarinnar í helgarferð. Ferðin var umbun fyrir góða mætingu og þátttöku í starfi deildarinnar, þau söfnuðu sjálf fyrir ferðinni með pappírssölu. Farið var á Gufuskála, vestan við Hellissand en þar Slysavarnarfélagið Landsbjörg með aðsetur fyrir þjálfunarbúðir.
Dagskráin var skipulögð jafnóðum vegna veðurs, en krakkarnir byrjuðu á að æfa sig að síga í þar til gerðum vegg. Öll fengu þau hjálma sem fylgdu þeim þennan tíma því hjálmar eru skyldubúnaður á æfingasvæðinu. Eftir kvöldmat sem krakkarnir sáu um sjálf, var kvöldvaka með tilheyrandi fjöri. Þegar líða tók á kvöldið var farið aftur niður á æfingasvæði í kulda og bleytu og skriðið niður í undirgöng sem liggja undir öllu svæðinu. Tilgangurinn með því er að venja sig við rústabjörgun við erfiðar aðstæður. Þetta var því langur, lærdómsríkur og spennandi dagur. Svo var auðvitað sungið, spilað og spjallað saman framundir morgun. Á sunnudaginn var prófuð ný þraut og farið aftur í rústabjörgun áður en lagt var af stað heim og voru allir ánægðir með vellukkaða ferð.