Friðrik Vignir Stefánssonhefur verið organisti Grundarfjarðarkirkju frá árinu 1988 en lætur nú formlega af störfum. Af því tilefni heldur hann kveðjutónleika í Grundarfjarðarkirkju laugardaginn 29. júlí 2006 kl. 12.00. Hann mun kveðja söfnuðinn á sunnudeginum 30. júlí þegar hann leikur nokkur verk áður en hátíðarmessa hefst kl. 14. Á eftir messunni verður kaffi í samkomuhúsinu.

 

Friðrik Vignir Stefánsson er fæddur á Akranesi 1962.  Hann lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akranesi 1983 og einleikaraprófi í orgelleik frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1987.  Kennarar hans á orgel voru Haukur Guðlaugsson, Fríða Lárusdóttir og Hörður Áskelsson.   Á árunum 1988-2005 starfaði  Friðrik Vignir  sem organisti og kórstjóri við Grundarfjarðarkirkju, sem og skólastjóri Tónlistarskóla Grundarfjarðar.   Friðrik var einn af fjórum kórstjórum Jöklakórsins, en hann samanstóð af kirkjukórum Stykkishólmskirkju, Grundarfjarðarkirkju, Ólafsvíkurkirkju, og Ingjaldshólskirkju á Hellissandi. Hann var einnig söngstjóri Kórs eldri borgara í Grundarfirði, Söngsveitarinnar Sex í sveit, stýrði Dixilandbandi Grundarfjarðar og tók þátt í margvíslegu tónlistarstarfi á Grundarfirði.

 

Friðrik Vignir hefur á síðustu árum haldið fjölda orgeltónleika bæði hérlendis og erlendis. Veturinn 2005-2006 var Friðrik Vignir við orgelnám í Konunglega danska tónlistarháskólanum, þar sem kennari hans var Lasse Ewerlöf.

 

Tónleikar Friðriks Vignis eru sem fyrr segir laugardaginn 29. júlí 2006 kl. 12.00. Á efnisskrá hans eru orgelverk eftir J.S.Bach, Bruhns, auk jazzsálmforleikja eftir Jesper Madsen. Tónleikarnir eru hluti af dagskrá Á góðri stundu í Grundarfirði og er aðgangur ókeypis og öllum heimill.