Orkuveita Reykjavíkur hefur keypt vatnsveitu Grundarfjarðar og mun leggja hitaveitu í bænum á næsta ári. Orkuveitan mun taka við rekstri vatnsveitunnar um næstu áramót, en taka þegar við verkefnum sem varða byggingu hitaveitunnar, sem verið hefur í undirbúningi.  Áætlað er að húsahitunarkostnaður hér í Grundarfirði lækki um 40 – 50% að meðaltali,  en hér er nú hitað með rafmagni.

 

Samkvæmt samningi, sem undirritaður var í dag í Grundarfirði,  er gert ráð fyrir að Grundarfjarðarbær leggi til vatnsveituna, fjármagn og þá undirbúningsvinnu, rannsóknir og boranir sem bærinn hefur kostað, samtals að verðmæti um 107 milljónir króna. Fjárfesting Orkuveitunnar við byggingu hitaveitunnar verður um 450 milljónir króna.  Gert er ráð fyrir að verð á köldu vatni verði það sama og í Stykkishólmi og Borgarnesi og verð á heitu vatni verði það sama og í Reykjavík.

 

Framkvæmdum við hitaveituna á að ljúka að mestu á næsta ári, en borunum er að mestu lokið og prufudæling stendur yfir. Þess má geta, að heitavatnsöflun er á Berserkseyri, en hin nýja brú yfir Kolgrafafjörð gerir lögnina mögulega.

 

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, og Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar OR, handsala samninginn í Eyrbyggju Sögumiðstöð. Sigríður Finsen forseti bæjarstjórnar og Guðmundur Þóroddsson forstjóri OR.

 

Eftir undirritun samningsins færði Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfiði, Orkuveitu Reykjavíkur ljósmynd af Kirkjufellinu sem er bæjartákn Grundarfjarðar.

Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar OR, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri OR, með ljósmyndina af Kirkjufellinu.