- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Laugardaginn 6. júní n.k. kl. 14.00 verður þess minnst að í ár eru 100 ár síðan hafskipabryggjan í Stykkishólmi var vígð. Þar verður söguskilti um Stykkishólmshöfn afhjúpað.
Í tilefni þessa, hefst athöfn kl. 14.00 við höfnina og einnig verður opnuð afmælissýning um hafskipabryggjuna í Norska húsinu
Afmælissýningin í Norska húsinu mun standa til 19. júlí og er húsið opið daglega kl. 11.00-17.00
Upp úr aldamótunum 1900 var farið að ræða þörf á að láta smíða bryggju í höfninni við Stykkishólm, bænum og sveitunum í kring til hagræðis. Málið hafði verið rætt í nokkur ár áður en tekin var ákvörðun um framkvæmdir, en árið 1908 var hafist handa við undirbúning og smíðar. Guðmundur Guðmundsson var ráðinn yfirbryggjusmiður og rúmlega 20 menn unnu við bryggjusmíðina. Var bryggjan fullbúin, 632 fet að lengd, 15 fet að breidd og tvísporuð. Bryggjuhöfuðið var 118 fet á lengd og 47 fet á breidd.
Hafskipabryggjan var á sínum tíma eitt mesta hafnarmannvirki landsins. Smíði hennar kostaði um 45.000 krónur og af þeirri upphæð greiddi landssjóður 10.000 og lánaði önnur 10.000. Sýslusjóður lagði til 2.000, Sparisjóðurinn 1.000 og kaupmenn 4.000-5.000 krónur. Það sem upp á vantaði lagði hreppssjóður til. Hafnarsjóður skyldi annast viðhald bryggjunnar og afborganir og vexti af skuldum hennar.
Vígsluhátíðin var haldin 18. júlí 1909 að viðstöddu fjölmenni, eða ca. 700 manns. Bryggjan var fánum skreytt og við bryggjusporðinn var reistur ræðupallur og söngpallur. Thorefélagsskipið „Kong Helge“ hafði komið daginn áður að norðan og á vígsludaginn kom stærsta skip Thorefélagsins „Sterling“ inn á höfnina og lagðist að bryggjunni fánum prýtt. Var margt manna með skipinu, bæði innlendir og erlendir. Við vígsluna voru haldnar margar ræður og minni, mikið var sungið og svo gekk ung stúlka, Ebba Sæmundardóttir (Halldórssonar) fram og klippti á borðann sem strengdur var fyrir bryggjusporðinn.
Eftir vígsluna á bryggjunni var verkamönnum er unnið höfðu við bryggjuna boðið í sjókólaði og kaffi. Kl. 6 síðdegis hafði hreppsnefndin boð í félagsheimilinu fyrir helstu menn sem komið höfðu að bryggjusmíðinni, skipstjórana af Thorefélagsskipunum og „Varangri“ og fáeina Hólmverja en almenningur skemmti sér undir berum himni við dans og söng fram á kvöld.