Ragnhildur Þóra Ágústsdóttir opnar myndlistasýninguna  „Leit sankti Húberts“  í Norska húsinu í Stykkishólmi, laugardaginn 12. júlí n.k. kl. 13.30.

 

 

Ragnhildur er fædd í Stykkishólmi árið 1976, dóttir hjónanna Rakelar Olsen og Ágústs Sigurðssonar.  Eftir útskrift frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1997 lá leiðin til Rhode Island í Bandaríkjunum þar sem Ragnhildur lagði stund á háskólanám við Roger Williams University og útskrifast þaðan árið 2002 með BS gráðu í fjármálafræði og "minor" í myndlist.  Í skólanum vann Ragnhildur aðallega við stór "mixed media" abstrakt verk en í dag málar hún aðallega figuratift og fíngert.  

Sýningin sem opnar í Norska húsinu nú, er fyrsta  einkasýning Ragnhildar en hún tók einnig þátt í samsýningunni „Í bláum skugga“ á sama stað nú í sumar. Myndefni Ragnhildar eru dýr í ýmsum stellingum, lifandi eða dauð,  máluð á hör með útþynntri olíu. Innblásturinn sækir hún til leitar Sankti Húberts að hinum fullkomna hirti og samfélags mannsins við náttúruna.

 

Hver var sankti Húbert?

 

Sankti Húbert var dýrlingur sem var uppi á 8. öld. Hann var mikill veiðimaður sem sóttist ætíð eftir hinni fullkomnu bráð. Eftir umtalsverða leit fann sankti Húbert hvítan hjört. Þegar kross birtist á milli horna hjartarins varð hann fyrir vitrun og fann guð. Sankti Húbert er þekktur sem dýrlingur veiðimanna og einnig dýrlingur þeirra sem missa trúna en finna hana aftur.

 

 

Norska húsið er opið daglega frá kl. 11.00 til 17.00 og sýningin stendur til  10. ágúst 2008