Fulltrúar frá UMFG, lögreglunni, KFUM-K, Unglingadeildinni Pjakki, Eden, Tilveru og fleiri kynntu sitt starf sem lýtur að málefnum barna og ungmenna. Einnig var nýtt forvarnarverkefni lögreglunnar kynnt.

Málþingið hófst með ávarpi Þorbjargar Guðmundsdóttur grunnskólakennara en hún tók þrisvar til máls þar sem hún kynnti starf félagsmiðstöðvarinnar Eden í vetur og starf Unglingadeildar Pjakks. Dóra Aðalsteinsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundarnefndar kynnti starf nefndarinnar og sagði frá vinnu forvarnarhóps sem kom saman nú eftir áramót og skipulagt hefur þetta málþing og málþing unglinga er haldið var 9. apríl sl. Í framhaldi af ávarpi Dóru rakti Sólrún Guðjónsdóttir leiðbeindandi við Grunnskóla Grundarfjarðar helstu niðurstöður þess fundar, en hún hefur haft umsjón með félagsstarfi þar. 

Opinn fundur um forvarnarmál

sumardaginn fyrsta 24. apríl 2003

Fulltrúar frá UMFG, lögreglunni, KFUM-K, Unglingadeildinni Pjakki, Eden, Tilveru og fleiri kynntu sitt starf sem lýtur að málefnum barna og ungmenna. Einnig var nýtt forvarnarverkefni lögreglunnar kynnt.

Málþingið hófst með ávarpi Þorbjargar Guðmundsdóttur grunnskólakennara en hún tók þrisvar til máls þar sem hún kynnti starf félagsmiðstöðvarinnar Eden í vetur og starf Unglingadeildar Pjakks. Dóra Aðalsteinsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundarnefndar kynnti starf nefndarinnar og sagði frá vinnu forvarnarhóps sem kom saman nú eftir áramót og skipulagt hefur þetta málþing og málþing unglinga er haldið var 9. apríl sl. Í framhaldi af ávarpi Dóru rakti Sólrún Guðjónsdóttir leiðbeindandi við Grunnskóla Grundarfjarðar helstu niðurstöður þess fundar, en hún hefur haft umsjón með félagsstarfi þar.

Gísli Guðmundsson, lögregluvarðstjóri, kynnti forvarnarstarf lögreglunnar og kom með tvo aðstoðarmenn með sér. Gísli hefur tekið að sér forvarnarmál hjá lögreglunni í sýslunni og hefur nýlega sótt námskeið hjá lögregluskóla ríkisins um þau mál. Hann mun fara í skólana á nesið nú í vor þar sem hann heimsækir 10. bekk þar sem fara verður yfir með börnum afleiðingar afbrota, með haustinu ætlar hann að fara í alla bekki frá 1. – 10 bekk , með sérstaka áherslu á hvern aldurshóp, en ríkislögreglustjóri hefur lagt ríka áherslu á að fylgja eftir forvörnum. Gísli mun fara með Lúlla löggubangsa í leikskólana og sýna þeim hvernig hann á að vera spenntur í bíl.

Guðmundur Hreinn Gíslason og Aðalsteinn Jósefsson fluttu erindi um reynslu sína af einelti.

Gísli sýndi brot úr myndbandinu ,,Vímuvarnir byrja heima”. Hann sýndi einnig sælgæti er líkist e-pillum og gerði grein fyrir því hversu auðvelt það er að koma slíkum efnum til grandalausra.

Fundarstjóri var Ingi Hans Jónsson.

Ræður frummælenda eru birtar hér í heilu lagi á eftir, en til máls tóku eftirtaldir:

Þorbjörg Guðmundsdóttir; setning málþingsins

Dóra Aðalsteinsdóttir; erindi fulltrúa íþrótta- og tómstundanefndar

Sædís Helga Guðmundsdóttir; erindi fulltrúa Tilveru

Sólrún Guðjónsdóttir; erindi um málþing unglinga í Grundarfirði

Helga Helena Sturlaugsdóttir; erindi um starf KFUM og K

Eygló Bára Jónsdóttir; erindi frá Ungmannafélagi Grundarfjarðar

Þorbjörg Guðmundsdóttir; erindi starfsmanns félagsmiðstöðvarinnar Eden

Þorbjörg Guðmundsdóttir; erindi starfsmanns Unglingadeildarinnar Pjakks

Guðmundur Hreinn Gíslason; erindi um reynslu af einelti

Eftir framsöguerindi var boðið upp á fyrirspurnir og umræður. Eftirfarandi umræður komu upp.

Spurt var hvort áfengisneysla unglinga í Grundarfirði hafi aukist eftir að Vínbúðin hóf starfsemi sína. Gísli, lögregluvarðstjóri, telur svo ekki vera en álítur það helsta áhyggjuefni að foreldrar kaupi áfengi fyrir unglinga. Sagt var frá Olweus, sem er verkefni í grunnskólanum gegn einelti. Markmiði verkefnisins er að kenna aðferðir til að greina þau vandamál sem upp koma og vinna allir starfsmenn skólans að verkefninu. Vakin var athygli á því að ekki er einvöruðungu um að kenna að börn beiti einelti heldur fullorðnir einnig. Tekið var undir það að samfélagið hafi verið að mótast í þá veru að fólk beri minni virðingu fyrir öðrum. Spurt var fyrir um hvort boðið væri upp á aðstoð fyrir þá sem orðið hafa fyrir einelti. Bent var á að auka þyrfti starf með börnum á miðstigi grunnskólans. Um er að ræða stóra árganga þar sem margir einstaklingar eiga við hegðunarvandamál að stríða. Einnig var bent á að efla þyrfti vinnu með reynslu fullorðinna sem urðu undir í grunnskóla. Vakin var athygli á því að þeir sem eru samviskusamir í íþróttahúsinu verði undir. Að samkeppni leiði til þess að börn verði grimmari við hvert annað og sum hver heltist úr lestinni. Að lokum var minnt á að bæjarfélagið þyrfti að móta sér fjölskyldustefnu.

Fundarstjóri hvatti félagasamtök, lögregluna og verkalýðsfélagið til að vinna að því að finna leið til að hjálpa því fólki í samfélaginu sem hefur upplifað einelti.

Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri þakkaði fyrir góðan fund, sérstaklega innlegg Guðmundar og Aðalsteins. Þakkaði hún þeim einstaklingum sem vinna með félagasamtökum er varða unglinga fyrir þeirra störf. Fræðslunefnd og stofnanir sveitarfélagsins hafa verið að vinna að því að virkja foreldrastarf en afar nauðsynlegt er að slíkt samstarf sé virkt.

Í fjölskyldustefnu þarf að koma með skilaboð til foreldra barna á hverju stigi frá leikskóla til menntaskóla. Hvernig nemendur koma út úr grunnskóla þarf að byrja að vinna að í leikskólanum.

Þorbjörg Guðmundsdóttir;setning málþingsins

Fyrir hönd forvarnarhópsins og undirbúningsnefndar þessa fundar vil ég byrja á því að bjóða ykkur velkomin og óska ykkur gleðilegs sumars!

Svona rétt til að byrja með langar mig aðeins að miðla af reynslu minni af vinnu minni með börnum og unglingum.

Besta forvörnin gagnvart óæskilegum áhrifum á börnin okkar er að sinna þeim t.d. gera hlutina skemmtilega sem við gerum með þeim, hvað langar þeim til að gera með okkur? Við þurfum að sýna þeim og láta þau sem oftast vita að okkur þyki vænt um þau, hlusta á þau, vera vinir þeirra, sýna þeim skilning, setja þeim reglur og halda aga. Svo má ekki gleyma því að við erum jafningjar þeirra, við þurfum líka að horfa á þau sem slíka. Við erum ekkert æðri þeim. Því með því að veita þeim þessi atriði, sem ég hef komið hér inná, sýna börnin okkar okkur skilning, væntumþykju og virðingu. Meginmarkmið okkar allra hlýtur því að vera, að byggja upp einstakling með góða sjálfsímynd og gott sjálfstraust til að segja nei þegar á reynir. Þá á égt.d. við ýmist áreiti s.s. áfengi, sígarettur, eiturlyf, einelti og hópþrýsting svo eitthvað sé nefnt.


Sem kennari hef ég tekið eftir því að því meiri agi sem ríkir í skólastofunni líður nemendum betur. Þetta er löngu sannað og kemur okkur foreldrum ekkert á óvart. Þetta hlýtur því einnig að gilda á heimilunum. Það erum við sem setjum reglurnar.... en það er vel hægt að gera það á þann máta að börnin okkar fái að taka þátt í að skapa hluta af þessum reglum. Við þurfum að hlusta á þau og láta þau segja okkur hvað þeim langar, innan ákveðna marka að sjálfsögðu. Einnig megum við ekki gleyma að unglingar eru í miklum áhættuhóp fyrir ýmiskonar óæskileg áhrif og því megum við ekki sofna á verðinum, við verðum að gera allt til að sporna gegn því að barnið okkar leiðist út í einhverja vitleysu! Það er varla það sem við viljum!

Ég veit að þetta eru engar fréttir sem ég er að færa hér en þetta er samt kannski hlutur sem við foreldrar gleymum allt of oft, þess vegna vildi ég bara koma með þessa litlu hugleiðingu til okkar allra kæru fundarmenn. Ég veit að við erum aldrei nægilega vakandi, en við þurfum að vera eins vakandi og kostur er til að koma á móts við krakkana okkar, sinna þeim á þeirra grundvelli og hlusta á þau. Þau þurfa reglur og aga því það er það sem þau vilja! Börnin okkar og unglingarnir eru framtíðin okkar – sýnum þeim áhuga!

Þorbjörg Guðmundsdóttir

Dóra Aðalsteinsdóttir; erindi fulltrúa íþrótta- og tómstundanefndar

Fundarstjóri, bæjarstjóri og aðrir góðir gestir.

Ég bíð ykkur öll velkomin hingað í dag, en ég kem hér upp fyrir hönd Íþrótta- og Tómstundanefndar en hana skipa auk mín Ragnhildur Högnadóttir varaformaður og Jón Björgvin Sigurðsson ritari. Nefndin heyrir beint undir skrifstofustjóra og starfar hann með nefndinni og ber ábyrð á að samþykktum hennar sé hrint í framkvæmd. Skrifstofustjóri undirbýr fundi nefndarinna og hefur málfrelsi og tillögurétt.

En ástæða þess að við erum hér samankomin í dag er að okkur í íþrótta- og tómstundanefndinni fannst komin tími til að endurvekja forvarnarhóp sem var hér starfandi í Grundarfirði um tíma. Við kölluðum saman þá sem eru að starfa með unglingum og annað áhugafólk og ákváðum í framhaldi af því að hafa tvö málþing annað með unglingum og hitt með fullorðnum. Tilgangurinn með þessum fundum var að reyna að líta dálítið í eigin barm og byrja á því að vita hvað við gætum gert betur hjá okkur.

Unglingarnir voru með sitt málþing fyrir skemmstu og þar komu fram margar mjög góðar hugmyndir og ábendingar sem við eigum örugglega eftir að fara vel yfir  og nota þegar við skipuleggjum starf næsta árs.

En í dag ætlum við að kynna aðeins þá starfsemi sem unglingum í Grundarfirði stendur til boða og það er ekki svo lítið  þegar allt er talið upp. Og mér heyrist á unglingunum okkar að þeir séu ánægðir með mjög margt sem gert er fyrir þá en það má auðvitað alltaf gera betur.

En kæru foreldrar og annað áhugafólk öll viljum við eiga fyrirmyndar börn og hvar eigum við að byrja, jú auðvitað heima hjá okkur og hafa alltaf gott samband við börnin og sína áhuga á því hvað þau eru að gera hverju sinni, sína aðhald og festu og elska börnin okkar óhikað.

Við ætlum núna þetta árið að líta til okkar sjálfra og vita hvað við getum gert betur í okkar heimabyggð, síðan mun forvarnarhópurinn hittast aftur í byrjun júní og fara yfir sín mál sem vonandi verður aðeins byrjunin á skemmtilegu starfi drífandi fólks.

Takk fyrir.

Dóra Aðalsteinsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar.

Sædís Helga Guðmundsdóttir; erindi fulltrúa Tilveru

Kæri bæjarstjóri, bæjarstjórn, foreldrar og aðrir gestir!

Tilvera er hópur sem vart þarf að kynna svo lengi hefur hann starfað.  Upphaflega var Tilvera stofnuð af hugsjónakonum sem allar áttu það sameiginlegt að eiga börn í grunnskóla og bera velferð þeirra fyrir brjósti.

Þessar hugsjónakonur hafa nú eftirlátið öðrum konum starfið sitt og reynum við að halda brautryðjendastarfi þeirra á lofti eins vel og við getum.

Að vera unglingur hefur vafalaust aldrei verið vandasamara og einmitt í dag þegar svo margt glepur og eitt hliðarspor getur markað unglinginn alla æfi .

Tilvera leggur sitt af mörkum í þessu litla samfélagi okkar til þess að unglingarnir okkar verði betur undirbúnir undir lífið.  Með því að styrkja og styðja við unglingana  með fræðslu ogþjálfun fáum við út sjálfsöruggari, sjálfstæðari, jákvæðari og ábyrgðarfyllri einstaklinga sem eru hæfari til að velja og hafna.

Þetta er framkvæmt með umræðum, fyrirlestrum og heimsóknum fagmanna á ýmsum sviðum.  Tilvera heldur fundi sína hálfsmánaðarlega á miðvikudagskvöldum kl.20.00 og höfum verið svo heppnar að geta nýtt okkur Félagsmiðstöðina Eden.

Af mörgu er að taka en þó má helst nefna heimsóknir snyrtifræðings, hársnyrtifræðings, fulltrúa frá Landsbankanum, fangavörð, prest, íþróttakennara og fyrrverandi alkóhólista svo eitthvað sé nefnt. Einnig höfum við staðið fyrir stórum fyrirlestrum og þá oft í samstarfi við Grunnskólann. Þá hefur sá sem flytur fyrirlesturinn byrjað á að tala við unglingana á skólatíma þar sem er skyldumæting og síðan talað við foreldrana um kvöldið. 

Þetta hefur skilað góðum árangri og krakkarnir hafa lýst yfir ánægju sinni oftar en einu sinni.

Starf Tilveru hefði aldrei gengið nema fyrir það að allir sem koma í heimsókn til okkar hafa gert það í sínum frítíma og aldrei tekið neitt fyrir.  Við þurfum auðvitað að borga fyrir suma fyrirlesarana en við höfum verið heppnar að því leyti að bæjarfélagið og fleiri góðir aðilar hafa styrkt okkur fjárhagslega.

Tilveruhópurinn hefur beitt sér fyrir því að foreldrar taki höndum saman og vinni að vímulausum grunnskóla.  Tilvera er í samstarfi við skólann í sambandi við námsgreinina lífsleikni sem fer þannig fram að ef eitthvert stórt verkefni er á döfinni hjá Tilveru s.s. fyrirlestur um vímuvarnir eða þess háttar þá er reynt að vinna áfram með það efni í skólanum.

Forvarnir snúast um fleira en að fræða unglingana um alkóhólisma og fíkniefni.  Forvarnir snúast einnig um að gera unglingana meðvitaðri um sjálfa sig og það gerum við með því að þeir viti meira um líkama sinn og útlit, hvernig á að hegða sér við hin ýmsu tækifæri og fái fræðslu um fjármálin svo eitthvað sé nefnt.

Forvarnir eru eitthvað sem við þurfum öll að vinna að.  Foreldrar verða að ræða við unglingana sína og fylgjast með því sem er í boði fyrir þá s.s. eins og Tilverufundirnir.  Foreldrarættu alltaf að sýna áhuga á því sem unglingarnir þeirra aðhafast.

Við vitum að hér í Grundarfirði er ýmislegt á seyði.  Það hefur komið upp sú staða að foreldralaus partý eru haldin og þá er mikilvægt að við stöndum saman og látum hvert annað vita.  Einnig hefur það átt sér stað að einhverjir unglingar hafi neytt eiturlyfja.

Sumrin eru hættulegur tími og þá megum við ekki sofna á verðinum.  Útivistartíminn lengist og við verðum oft kærulausari en ella.  Þá nota unglingarnir tækifærið og gera það sem þeir hafa ekki aldur til.  Verslunarmannahelgin er oft notuð til að fara á sitt fyrsta fyllerí, unglingarnir fá jafnvel að fara einir á útisamkomur án alls eftirlits.  Það býður aðeins hættunni heim og við ættum að hafa það hugfast að unglingurinn verður ekki lögráða fyrr en 18 ára. 

Sú umræða hefur heyrst að foreldrar ættu að taka sig saman og byrja á foreldrarölti eins og gert er á mörgum stöðum.  Það veitir visst aðhald og þá er ekki eins auðvelt fyrir unglingana að aðhafast eitthvað ólöglegt.  Unglingar vilja aðhald og við þyrftum ekki að láta líta svo út að við séum að njósna um eitthvað sem okkur kemur ekki við.  Málið er nefnilega að okkur kemur það við hvað unglingarnir okkar aðhafast.

Stöndum saman og vinnum sameiginlega að velferð unglinganna okkar.

Sólrún Guðjónsdóttir; erindi um málþing unglinga í Grundarfirði

Kæri bæjarstjóri, bæjarstjórn og aðrir gestir.

Þann 9. apríl síðastliðinn var haldið málþing unglinga í Grundarfirði þar sem til máls tóku fulltrúar nemenda í 8-10 bekk og fjarnámi, ásamt fulltrúa frá Félagsmiðstöðinni Eden sem var nýkominn af Landsþingi ungs fólks.

Umræðuefnin voru fjölbreytileg, allt frá aðstöðu til félagsstarfs til atvinnumöguleika ungs fólks.

Almennn ánægja er meðal grunnskólanema um þá aðstöðu sem félagsmiðstöðin hefur upp á að bjóða, en þeim finnst hún mega vera opin oftar í viku.  Fjarnámsnemar vildu gjarnan hafa aðgang að félagsmiðstöðinni, bara fyrir sig og öll vildu þau sjá íþróttahúsið opið í frímínútum og í hádeginu.

Hvað íþróttamálin varðar voru þau mjög ánægð með framboðið en minntust á að í þessari einmuna veðurblíðu þá mættu útiæfingar byrjar fyrr á vorin og vara lengur á haustin.  Eins kom fram ósk um möguleika á badmintonæfingum.

Hvað grunnskólann varðar þá óskuðu nemendur eftir fleiri frímínútum á milli tíma, þar sem erfitt væri að halda einbeitinguí 80 mínútur, aðstoð við að koma á fót öflugu skólablaði og klúbbastarfsemi, svo sem ljósmynda-, kvikmynda-, tafl-,tölvu-, les- og frímerkjaklúbbum.

Unglingarnir voru mjög sáttir við það forvarnarstarf sem fram hefur farið á síðustu árum, en töldu að almenn kynfræðsla hefði orðið útundan og eins fannst þeim vanta smokkasjálfsala í bæinn svo þeir sem stunda kynlíf geti gert það á ábyrgan hátt.

Nú fer að líða að því að unglingavinnan hefjist og fannst öllum mjög ósanngjarnt að allir fengju sömu laun burtséð frá því hvortþau legðu eitthvað á sig.  Eins fannst þeim að vanda mætti valið á flokk- og verkstjórum unglinganna.

Í heildina voru unglingarnir mjög ánægð með það sem fyrir þau er gert hér í Grundarfirði þó auðvitað megi alltaf bæta hlutina.  Ræðurnar sem fluttar voru á málþinginu getið þið lesið á vefnum okkar grundarfjordur.is.

Málþingið tókst mjög vel og voru fundargestir sammála um að umræða að þessu tagi ætti fyllilega rétt á sér og þyrfti að vera fastur liður í lífi okkar grundfirðinga og var ákveðið að stefna að slíku þinghaldi annað hvert ár.

Helga Helena Sturlaugsdóttir;erindi um starf KFUM og K

Fundarstjóri, góðir fundamenn. Ég vil byrja á því að kynna mig fyrir þá sem ekki vita deili á mér nú þegar, en ég heiti Helga Helena Sturlaugsdóttir og er sóknarprestur  hér í Grundarfirði. Mér var falið það verkefni að kynna stuttlega fyrir ykkur hvað kirkjan bíður upp á fyrir unglinga.

Á vegum Grundarfjarðarkirkju í samvinnu við KFUM&K er KFUM&K deild starfrækt í kirkjunni. En það er æskulýðsstarf sem ætlað er unglingum. Samverur eru í safnaðarheimilinu annað hvert föstudagskvöld kl 20:30-22:00 fyrir 8-10 bekk en síðan er opið fyrir 16 ára til 20. ára unglinga milli 22:00-00:00. Það eru leiðtogar á vegum KFUM&K úr Reykjavík sem sjá um stundirnar. Forstöðumaður heitir Eiríkur Valberg, en hann hefur mikla reynslu af æskulýðsstarfi. Algengt er að einn annar leiðtogi mæti með honum en þó er það ekki algilt. Hér í Grundarfirði hafa svo verið þrjár ungar stúlkur, þær Rósa, Begga og Hildur sem aðstoða hann og eru eins konar aðstoðarleiðtogar. Ég kíki svo á stemminguna af og til ásamt því að vera þeim innan handar ef eitthvað er.  Mæting hefur verið góð en á milli 17-25 krakkar hafa mætt á stundirnar sem eru fyrir 8-10 bekk en um það bil 10 á fundina fyrir eldri krakkana. Á samverustundunum eru ýmsar uppákomur, farið er í leiki, ratleik, sagðar sögur, pöntuð pizza og fleira í þeim dúr. Allar stundirnar eiga það þó sameiginlegt að á þeim er farið með bæn í upphafi og þeim lýkur svo með hugleiðingu og stuttri helgistund uppi í kirkju. Markmiðið með starfinu er að unglingarnir geti komið saman í kirkjunni sinni, átt þar góða stund saman í samfélagi við Krist. Með því að hafa svona æskulýðsstarf er verið að reyna að skapa stað þar sem unglingarir geta komið saman í góðu umhverfi þar sem fullorðinn einstaklingur fylgist með þeim og leiðbeinir þeim ásamt því að setja boðunina á Krist í samhengi sem þau bæði skilja og þekkja.

KFUM & K hér í Grundarfirði var síðast liðið haust boðið að vera fulltrúar Íslands á alþjóðlegu unglingamóti í Tékklandi í júlí næstkomandi. Eftir að hafa skoðað málið, var ákveðið að þyggja það boð með þökkum og hafa 16 unglingar ákveðið að fara í þá ferð ásamt aðstoðarleiðtogunum okkar þremur, Eiríki Valberg, mér og einum enn leiðtoga. Um er að ræða mót sem er rétt hjá Prag dagana 13-19 júlí og verður farið héðan þann 12 júlí og komið aftur 20 júlí. Slíkt mót er án efa mikið ævintýrir fyrir unglingana og er það á vegum þekktra samtaka sem eru rómuð fyrir að halda glæsileg mót þar sem allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Unglingarnir okkar hafa af þessum sökum, með dyggri hjálp foreldra, staðið í ströngu við fjáröflun til þess að mæta kostnaði við ferðina en hann er á milli 50-60 þúsund fyrir hvert barn. Þessi ferð er  mikil lyftistöng fyrir starfið okkar hér í kirkjunni og eflir það.

Nú þá held ég bara að þessari stuttu kynningu sé lokið og þakka fyrir mig.

Eygló Bára Jónsdóttir;erindi frá Ungmannafélagi Grundarfjarðar

Ég er hér til að segja ykkur aðeins frá starfi ungmennafélagsins í Grundarfirði sem í sumar hefur verið starfrækt í 75 ár. Ungmennafélagið hefur aðallega helgað sig barna og unglingastarfi upp að 16 ára aldri hefur síðastliðin 2-3 ár verið að reyna að finna verkefni fyrir eldri krakka og ber þar helst að nefna samstarf félagsins við félögin hér á nesinu með 3. flokk karla sem er fyrir stráka 16 og 17 ára og eins meistara flokk kvenna sem er frá 15 ára og eldri en vitað var að ef ekki yrði starfræktur mfl.kvenna hér þá hefðu nokkrar stelpur ekki komið heim í fyrra sumar.En starfsemi þesssara flokka er þó aðallega miðuð við sumarið. Í vetur hefur félagið boðið upp á æfingar í 5 íþrótttagreinum og hafa því flestir getað fundið eitthvað við sitt hæfi þó svo að við vitum jú að það hafa ekki allir áhuga á íþróttum. Í sumar verðum við með æfingar í fótbolta, frjálsum og sundi og eins og alltaf er reynt að láta ekkert stangast á í tímatöflunni.

Samstarfið í 3.flokki karla og meistaraflokki kvenna heldur áfram og hefur það verið okkur mikið kappsmál að halda því samstarfi áfram því það er í raun það eina sem við getum boðið krökkum eldri en 16 ára í sumar. Mikið hefur verið rætt um að það sé svo dýrt fyrir krakka sem orðnir eru 16 ára að æfa hjá félaginu því þau eru komin á fullorðinsgjöld. Við þessum kvörtunum hefur verið brugðist á þann hátt að þeir unglingar sem eru í skóla verða á barnagjaldi til 18 ára og vonumst við til þess að allir verði ánægðir með það. Svona í lokin langar mig að nefna það að nú í vetur hefur borið dálítið á leiðinlegum móral á milli sumra krakkana á æfingum og sum jafnvel neitað að mæta lengur á æfingar. Foreldrar, brýnum fyrir börnunum að íþróttir eru fyrir alla líka þá sem eru ekki bestir takk fyrir.

Þorbjörg Guðmundsdóttir; erindi starfsmanns félagsmiðstöðvarinnar Eden

Ýmiss konar tómstundir fyrir börnin okkar er mjög mikilvægur hlekkur í forvörnum því það er löngu sannað að skipulagt tómstundastarf hefur jákvæð áhrif á líðan og lífstíl barnanna okkar í dag. Því fjölbreyttara tómstundastarf sem við bjóðum upp á því meiri möguleiki á að við náum til áhugasviðs sem flestra og þar af leiðandi fyrirbyggjum við að óæskilegir þættir geti haft áhrif á lífstíl barnanna okkar. Þess vegna teljum við að mikilvægt sé að styðja við uppbyggjandi starf á vettvangi tómstundaiðkunar.

Þetta er fyrsti vetur félagsmiðstöðvarinnar Eden í núverandi húsnæði. Það hefur marga kosti og býður upp á margvíslega möguleika sem vert er að vinna að. Þetta er spennandi verkefni sem hefur verið í mikilli framþróun frá því ég byrjaði árið 2000. Margar hugmyndir mínar hafa fengið góðan farveg og mun starfið byrja á fullu næsta vetur. Einnig megum við ekki gleyma því að við þurfum enn að halda vel á spöðunum því þar næsta vetur mun koma framhaldsskóli sem þarf líka sitt félagsstarf.

Núverandi starfsemi er þessi:

Á mánudögum er opið frá 8 til 10. Krakkarnir hittast og hlusta á tónlist, horfa á video, leika sér í borðtennis, pool, billjard og þeim tækjum sem til eru.

Á Föstudögum er opið í íþróttahúsinu frá 9-11 og þar fá þau að leika sér óáreitt í fótbolta, körfubolta, blaki og þess háttar íþróttum. Einnig kíkja þau bara inn til að sýna sig og sjá aðra. Þetta er opið fyrir alla unglinga frá 8. bekk og uppúr.

Næsta vetur mun svo starfsemin vera einhvern veginn á þessa leið:

ü       Eldri hópur unglinga, þ.e. 16-18 ára, fái a.m.k. einn dag í mánuði aðstöðu til að hittast.

ü       Yngri hópur barna, þ.e. 12-13 ára, fái tækifæri til að nýta sér aðstöðuna seinni part úr degi, 1 sinni ca á hálfs mánaðar fresti.

ü       Opið verður áfram á mánudögum og föstudögum líkt og verið hefur en bætist ein opnun við, annan hvern miðvikudag á móts við tilveru.

ü       Opnunartími félagsmiðstöðvarinnar verður óháður opnunartíma grunnskólans. (sem hefur nú aðeins breyst líka núna í vetur.)

Næsta vetur höfum við hugsað okkur að setja upp meiri dagskrá í tilefni þess að núna höfum við eitt auka kvöld um að ráða. Þá verður krökkunum leyft að mála einn vegg og eitt herbergi í sumar. Einnig vonumst við til að fjölga ljósum og kaupa góðan hornsófa inn í Ljónagryfju, sem verður keypt fyrir peninginn sem Lionsklúbburinn okkar í Grundarfiði gaf Eden við opnunina.

Í lokin langar mig að segja frá að um áramót komum við félagsmiðstöðvarnar á Snæfellsnesi á samstarfi okkar í millum. Það starf mun eflast og ætlunin er að hittast aftur fyrir skóla lok og setja niður sameiginlega dagskrá fyrir veturinn. Þetta samstarf er vísir að félagi sem ætlunin er að stofna á næsta starfsári. Nafnið er ekki alveg komið á hreint en nokkrar hugmyndir eru upp um það, s.s. Samsnær, Samvest og fleiri.

Ég tel að ég sé hér búin að stikla á stóru er varðar Félagsmiðstöðina Eden og því starfi sem unnið er þar.

Fyrir hönd mina og Sólrúnar, þá þakka ég gott hljóð!

Þorbjörg Guðmundsdóttir

Þorbjörg Guðmundsdóttir;erindi starfsmanns Unglingadeildarinnar Pjakks

Forsenda öflugs unglingastarfs í bæjarfélaginu er áhugi okkar bæjarbúa á sjálfstæði, velferð og athafnasemi unga fólksins okkar. Til að þetta geti þrifist hér í Grundarfirði þarf að skapa réttan vettvang fyrir þess konar starfsemi.

 Ég tel að með starfsemi Unglingadeildarinnar Pjakks, sem ákveðið var að endurvekja þar síðasta haust, höfum við réttan vettvang fyrir að efla félagsþroska, sjáfstæði og sjálfsbjargarviðleitni unga fólksins okkar. Þessi starfsemi hvetur til heilbrigðra lífshátta og sýnir þeim fram á mikilvægi náttúrunnar okkar og virðingu við hana.

Hér er smá lýsing á starfinu:

Að hausti er skipuð stjórn rétt eins og er í sveitinni sjálfri. Sem stendur eru Alti Freyr Friðriksson formaður, Gísli Valur Arnarson gjaldkeri og Áslaug Karen Jóhannsdóttir ritari.

Starfsemin felur í sér ýmis konar æfingar, kunnáttu og þekkingu sem krakkarnir þurfa að tileinka sér. Til dæmis læra þau á áttavita, rötun, lesa úr kortum, almenna ferðamennsku, fyrstu hjálp, leitartækni, að síga, fara út á slöngubát, ásamt svo mörgum öðrum þroskandi og eflandi fræðum. Í hópnum eru núna starfandi 15 krakkar sem er hámarksfjöldi sem ég tek inn á haustin og öll sýna þau óbilandi áhuga á þessu öllu saman.

Sem stendur höfum við fundi einu sinni í viku, niður í Björgunarsveitarhúsi. Ef veður leyfir þá förum við út og setjum upp ýmsar æfingar þar í staðinn.

Einu sinni að vetri fer ég með Pjakkana mína út á Gufuskála. Þar eru æfingabúðir fyrir björgunarsveitir sem er alveg frábær aðstaða. Þessi ferð hefur heppnast frábærlega þessi tvö ár.

Í vor ætla ég að stefna að óvissuferð og svo í sumar ætla Pjakkarnir og unglingadeildin úti á Hellissandi að skella sér í eina útlegu sem verður skipulögð af strjórn deildanna ásamt okkur umsjónarmönnunum.

Annars þakka ég bara gott hljóð og ykkur er velkomið að spyrja mig á eftir ef það er eitthvað. Þorbjörg Guðmundsdóttir

Guðmundur Hreinn Gíslason; erindi um reynslu af einelti

Fundarstjóri og góðir fundarmenn:

Mig langar að segja ykkur svolítið frá þeirri reynslu sem ég varð fyrir í grunnskólanum okkar þegar ég var þar í skóla.

Af hverju er ég á lífi í dag? Það er vegna þess að sambandið á milli mín og foreldra minna var svo gott, ég sagði þeim oftast allt sem gekk á í skólanum og í daglegu lífi. Ástæðan fyrir því að maður lét sig ekki hverfa var sú að maður vildi ekki gera fólkinu sínu það. Stuðningurinn og hjálpin frá foreldrum mínum hafði þar mikið um að segja. Ég heyrði góða klisju fyrir nokkru síðan : ,,Ekki gera öðrum þann greiða að drepa þig!”

Stuðningurinn frá samnemendum mínum var ekki mikill fyrri parts grunnskólans, en þegar maður eignaðist í raun og veru vini stóðu þeir með manni. Eineltið var samt alltaf til staðar, það gat verið svo lúmskt, smá augnaráð, verið að ýja að einhverju sem hafði gerst. Eineltið sem ég varð fyrir var miklu meira andlegt heldur en líkamlegt, en það kom nú samt fyrir.

Sú ástæða sem ég held að sé fyrir því að ég var lagður í einelti er til dæmis útaf nafni mín, svona í yngstu bekkjum grunnskólans, starfi föður míns, ég var ekki sterkur af burðum, átti erfitt með að læra að lesa. Svo kom eineltið líka framm í því að það var búið að dreifa því um bekkina að maður væri svona og svona, svo auðvitað hafa krakkar á þessum aldri ekki þann þroska að koma til manns og spyrja “er þetta rétt sem ég var að heyra” og ég held að fullorðið fólk mæti líka taka þetta til skoðunar.

Sögusagnir eða gróusögur dregur maður ekki svo létt til baka, þannig að þið getið ímyndað ykkur hvernig það er að ganga inn í bekk eftir svoleiðis.

Allt þetta hafði sálræn áhrif á mig, ég varð lokuð persóna, treysti engum á svipuðum aldri og ég fór ekki það sem maður langaði til, til dæmis út á kvöldin. Maður bara einangraðist ósjálfrátt. Þannig gaf maður ekki tækifæri á að láta níðast á sér að óþörfu. Það komu þeir tímar að maður brotnaði gjörsamlega niður þegar maður kom heim úr skólanum. Ég held að krakkar og unglingar hafa ekki þann þroska til að taka á móti mótlæti. Þau eru ekki eins sjóuð í mannlegum samskiptum eins og við fullorðna fólkið, og brotna kannski undan smá mótvindi.

T.d tók ég allt mjög til mín sem var sagt við mig, ég setti aðra á hærri stall, og hugsaði af hverju er ég ekki eins og þau . Maður varð á vissum tímapunkti eins og aðrir vildu hafa mann. Sem er auðvitað mjög heimskulegt. En eineltið skánaði ekki hjá mér þótt ég væri eins og tuskubrúða. Auðvitað einn daginn vakna menn, þegar við verðum reyndari á lífið og kannski stoppum og hugsum.

Í dag er ég sá sem ég er, og það hefur fleygt mér langt.

Í mínum bekk voru nokkrir einstaklingar lagðir í einelti, held ég að þeir hafa farið verr útúr því en ég. T.d. ber einn bekkarfélagi minn líkamlegt tjón af því ofbeldi sem hann var beittur í grunnskólanum. Fólk sem ég hef rætt við, sem var lagt í einelti man ekki eftir þeim tíma sem það var lagt í einelti. Í raun og veru vill það ekki muna þetta, og mundi líklaga svara því ef hlutlægur aðili mundi spyrja “varstu lagður í einelti?” Það mundi í flestum til fellum svara neitandi.

En það hefur verið sagt af fólki sem unnið hefur í skólanum, að eins mikil grimmd og var í mínum bekk hefur ekki sést síðan. Þeir sem verða fyrir einelti geta alls ekki einbeitt sér, hvorki við nám né vinnu á vinnustöðum.

Ástæðan fyrir því að ég er hér í dag er ekki sú að finna sökudólg, eða einhvern til að koma sökinni á. Ég er eiginlega að reina að hjálpa sjálfum mér, með því að tala um þetta, og miðla reynslu minni til annarra. Það er örugglega einhver í svipaðri aðstöðu og ég var í.

Einn góður vinur minn spurði mig í vetur, af hverju maður væri ekki löngu farinn héðan. En fyrir nokkrum vikum áttaði ég mig á svarinu, ég fór ekki, allir aðrir fóru.  Samt, hefði ég farið, það hefði ekki leist neinn vanda, vandinn er hjá mér, maður þarf að vinna í sjálfum sér í gegnum allt lífið.

Til gamans hef ég haft það að leiðar ljósi í lífinu að koma fram við aðra eins ég og ég vil láta koma fram við mig, þetta er gömul tugga, en hún virkar. Ég held að það vanti í samfélagið okkar umburðarlyndi gagnvart náunganum, og virða persónurnar eins og þær eru, eins og við öll erum ólík.