Nýtt flokkunarkerfi sorps innleitt í Grundarfjarðarbæ

Í byrjun október nk. hefst innleiðing á nýju samræmdu flokkunarkerfi, í takt við breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Íbúar í Grundarfirði hafa haft þriggja tunnu flokkun í meira en áratug. 

Breytt lög kveða á um að skylt verði að flokka úrgang í a.m.k. sjö flokka og að við hvert heimili eigi að taka við fjórum úrgangsflokkum, sem eru:

  • Pappír og pappi 
  • Plast
  • Lífrænn úrgangur (matarleifar)
  • Blandaður úrgangur

Þetta þýðir að íbúar fá nú fjórðu tunnuna til flokkunar og verður henni dreift í síðustu viku septembermánaðar. Hirðutíðni á pappír/pappa og plasti mun breytast (nánar um það síðar).  Tunnur verða merktar með nýjum samræmdum flokkunarmerkingum.

Athygli er vakin á því að heimili geta sameinast um tunnur, t.d. ef íbúar í raðhúsi vilja deila einni eða fleiri tunnum, þá er það hægt og verður til lækkunar á gjöldum.

Málmur fer nú ekki lengur í heimilistunnu, heldur má skila honum á nýja grenndarstöð innanbæjar (við Kjörbúðina). Það sama gildir um gler, sem hingað til hefur ekki verið tekið sérstaklega við.

Textíll (fatnaður, lín o.fl.) er sjöundi flokkurinn og verður innan tíðar tekið við honum á söfnunarstöðinni við Ártún. Þar má einnig skila, eins og áður, öðrum flokkum úrgangs, s.s. rafhlöðum, spilliefnum o.fl. á opnunartíma stöðvarinnar. 

Bæklingur um þessar breytingar hefur verið sendur á hvert heimili og íbúafundur verður haldinn til að kynna þessar breytingar mánudaginn 23. september nk. kl. 17:15 í Sögumiðstöðinni, Grundargötu 35.

Grundarfjarðarbær óskar eftir góðu samstarfi við íbúa um innleiðingu á nýja kerfinu.  

 

Hér að neðan eru upplýsingar um fyrstu skrefin í þessu nýja flokkunarkerfi.  

Fjórir flokkar 

Flokka þarf heimilisúrgang í þessa fjóra flokka:

  • Pappír og pappi - (gamla græna tunnan eða nýja tunnan)
  • Plast - (gamla græna tunnan eða nýja tunnan)
  • Lífrænn úrgangur (matarleifar) - sama tunna og áður
  • Blandaður úrgangur - sama tunna og áður

Á öllum heimilum eiga að vera ílát fyrir þessa fjóra flokka. 

Athugið, að einhvers staðar eru brúnar tunnur fyrir lífrænt sorp til við heimili, án þess að vera í notkun. Íbúar eru hvattir til að hefja notkun á þeim undir lífrænt sorp. 

Nýjar grenndarstöðvar í dreifbýli

Öll heimili í dreifbýli njóta sömu þjónustu og heimili í þéttbýli. Sorp er flokkað í sömu flokka og hirðing fer fram á sömu dögum og í þéttbýli. Íbúar þar munu fá fjórðu tunnuna keyrða heim til sín, eins og íbúar í þéttbýlinu. 

Sumarhúsaeigendur í dreifbýli munu hinsvegar verða varir við þá breytingu, að ný grenndarstöð verður sett upp sem gerir þeim kleift að skila sorpi í sömu fjóra flokkana og gildir við heimilin. Grenndarstöð fyrir framsveit verður sett upp við golfskálann (nánari upplýsingar síðar) og fyrir útsveit verður móttakan á sama stað og verið hefur, nema nú með fjórum flokkum.

Hinir flokkarnir

Við flokkun þarf að passa að gler, málmar, rafhlöður og spilliefni, textíll og lyf rati ekki í blandaðan úrgang. 

Grenndarstöð, sem sett verður upp við Kjörbúðina, tekur við málmum og gleri.

Á söfnunarstöð (gámastöðinni) við Ártún verður á næstunni farið að taka við textíl (vefnaðarvara; fatnaður, lín og fleira). Þar er einnig tekið við rafhlöðum, rafmagnstækjum og öllum hefðbundnum flokkum, eins og verið hefur.  

Sjá hér bækling sem borinn hefur verið í hús. 

Leiðbeiningar á öðrum tungumálum má finna hér. 

Hér er gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs í Grundarfjarðarbæ.