Nýtt ár hefur hafið göngu sína með nýjum áskorunum. Á sviði sveitarstjórnarmála í Grundarfirði eru nokkur mikilvæg verkefni framundan. Þar má helst nefna að undnafarin misseri hafa staðið yfir viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur um samning um hitaveituvæðingu Grundarfjarðar sem gerður var við OR 2005. Eins og kunnugt er hefur OR hætt frekari leit að vatni en mikilvægt er að fá úr því skorið hvort leita eigi frekar að heitu vatni eða leita annarra leiða til húshitunar.

 

Á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Snæfellsnesi hefur samstarfsverkefnum fjölgað jafnt og þétt og er nú unnið að verkefni um svæðisgarð á Snæfellsnesi, umhverfisvottun undir merkjum Earth Check,rekstur Byggðasafns Snæfellinga og Félags- og skólaþjónustu. Undanfarin tvö ár hefur Grundarfjarðarbær keypt þjónustu byggingarfulltrúa af Snæfellsbæ, sem hefur gengið vel,en fyrir liggur að auka þarf starfshlutfallið og er nú leitað annarra lausna.

 

Áríðandi er að sveitarfélögin á Snæfellsnesi standi vörð um Fjölbrautaskóla Snæfellinga hér eftir sem hingað til, því minni skólar eiga ávallt undir högg að sækja þegar að niðurskurði kemur.

Á fleiri sviðum þarf að glíma við ríkisvaldið og má þar nefna niðurskurð í heilbrigðisþjónustu sem hætt er við að komi hart niður á þjónustu heilsugæslunnar hér, gangi áætlanir eftir. Bæjarstjórn hefur barist hart gegn skerðingu á þjónustu heilsugæslunar með tímabundnum árangri og mun halda þeirri baráttu áfram og krefjast þess að þjónustan verði ekki skert.

Á árinu ber hæst í framkvæmdum að stefnt er að flutningi bókasafnsins í húsnæði Sögumiðstöðvarinnar og eru miklar vonir bundnar við að sá flutningur muni efla starfsemi bókasafnsins og Sögumiðstöðvarinnar sem upplýsingamiðstöðvar og samkomustaðar. Í kjölfar flutnings á bókasafni er stefnt að því að færa bæjarskrifstofuna á Borgarbraut 16, m.a. í núverandi húsnæði bókasafnsins. Áður en af því verður er ljóst að finna þarf félagsstarfi eldri borgara nýjan samastað og kemur samkomuhúsið þar helst til greina. Gangi þessar áætlanir eftir verður núverandi húsnæði bæjarskrifstofunnar leigt út til sprotafyrirtækja en húsnæðið er einstaklega hentugt fyrir slíka starfsemi.

Komið er að viðhaldi á samkomuhúsinu og verður þakið endurnýjað á árinu ásamt því að bæta þarf ýmislegt innandyra.

Áfram verður unnið að endurbótum gangstétta eftir því sem aðstæður leyfa. Lögð verður áhersla á að halda framkvæmdum áfram á Grundargötu frá bæjarskrifstofu í átt að Hrannarstíg. Þá verða gangstéttir lagfærðar á öðrum stöðum eftir því sem unnt er en gangstéttir eru víða illa farnar og of mjóar.

Í skipulagsmálum stendur nú yfir skoðun á skipulagi hafnarsvæðis en áætlanir eru um að reisa fiskimjölsverksmiðju í húsnæði gömlu beinamjölsverksmiðjunnar. Einnig eru uppi áform um viðbyggingu við Hótel Framnes. Þegar nánari gögn og upplýsingar liggja fyrir mun verkefnið verða kynnt íbúum.

Áfram verður leitað hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins og nú í upphafi árs er unnið að umtalsverðum breytingum í tölvumálum á bæjarskrifstofunni sem mun leiða til lægri rekstrarkostnaðar og aukins gagnaöryggis. Mikilvægt er að uppfæra hugbúnað og tölvubúnað með reglubundnum hætti svo koma megi í veg fyrir truflanir í rekstri.

Á íbúafundi í desember kom fram sterkur vilji fundarmanna að draga ekki úr vinnu við skólastefnu sem áætlað hafði verið að fresta. Bæjarstjórn hefur ákveðið að halda áfram við þá vinnu en tilgangur skólastefnu er m.a. að móta okkar áherslur og sérstöðu í skólastarfi innan ramma laga og aðalnámsskrár. Um helmingur af skattfé sveitarfélagsins fer til fræðslu- og uppeldismála og skiptir því verulegu máli að markmið og stefna í málaflokknum sé skýr.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að stór hluti síldarstofnsins kaus að setjast að í Kolgrafafirði en þó fjörðurinn sé fagur þá reyndist helst til of þröngt fyrir allt þetta magn og er áætlað að á milli 25 og 30 þúsund tonn af síld hafi drepist vegna súrefnisskorts. Bæjarstjórn fylgist mjög náið með þróun mála og er í góðu sambandi við umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnunina. Hætt er við að veruleg umhverfismengun sé í uppsiglingu og ljóst að komi til hreinsunar á fjörum þarf að vinna það í samstarfi við ríkisstofnanir.

Verkefnin eru því fjölmörg og fjölbreytt. Grundarfjarðarbær mun áfram vinna að því að styrkja stoðir samfélagsins og vinna að brýnum hagsmunum okkar í samstarfi við íbúa, því við erum öll virkir þátttakendur í því að skapa gott samfélag. Það er spennandi ár framundan.

Ég óska Grundfirðingum og Snæfellingum öllum gleðilegs árs.

Björn Steinar Pálmason
bæjarstjóri