- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Föstudaginn 21. október sl. opnaði samgönguráðherra formlega nýjan veg um Kolgrafafjörð.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra klippir á borðann ásamt Jóni Rögnvaldssyni vegamálastjóra. Mynd: G. Kristj. |
Verkið var boðið út í febrúar 2003. Samið var við Háfell ehf. og Eykt ehf. um verkið og hófust framkvæmdir í lok apríl 2003. Vegurinn var lagður bundnu slitlagi og opnaður fyrir umferð haustið 2004 sem var 6 mánuðum á undan áætlun. Verktakinn lauk síðan við sinn hluta verksins sl. sumar.
Eftirlit og umsjón með þessari framkvæmd var í höndum framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar í Borgarnesi.
Með nýjum vegi yfir Kolgrafafjörð styttist leiðin á norðanverðu Nesinu um 6-7 km auk þess sem nú verður komið bundið slitlag á alla leiðina milli þéttbýlisstaðanna. Þetta styrkir mikið allan samgang milli staðanna og eykur möguleika þeirra á margvíslegri samvinnu. Gott dæmi um þetta er stofnun nýs framhaldsskóla í Grundarfirði. Nýi vegurinn verður auk þess mun öruggari en gamli vegurinn sem var frekar hlykkjóttur malarvegur og lá um mjög erfitt og varasamt veðursvæði í botni fjarðarins.
Vegurinn er byggður í vegflokki C1, með heildarbreidd 7,5 m en þar af er slitlagið 7,0 m breitt. Á fyllingunni yfir fjörðinn er heildarbreidd vegarins hins vegar 9,5 m. Brúin sem liggur vestan megin í firðinum við Hjarðarbólsoddann er 230 m löng og var lengd hennar miðuð við að sjávarföll yrðu nær óbreytt frá því sem áður var. Í veginn fóru um 620 þúsund rúmmetrar af möl og auk þess voru notaðir um 120 þúsund rúmmetrar af grjóti í rofvörn sjávarfyllingarinnar. Í brúna fóru um 2.440 rúmmetrar af steypu og um 178 tonn af steypustyrktarjárni.