- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nanna Vilborg Harðardóttir
Nanna hefur verið ráðin verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála hjá Grundarfjarðarbæ. Hún mun hafa umsjón með þeim skipulagsverkefnum sem í gangi eru hjá bænum hverju sinni og fylgja þeim eftir gegnum lögbundin skipulagsferli, í samvinnu við skipulagsfulltrúa, fagnefndir bæjarins o.fl. Stefnt er að því að Nanna öðlist réttindi til að sinna embætti skipulagsfulltrúa, en fram að því starfar hún með skipulagsfulltrúa og í umboði hans. Sem verkefnisstjóri umhverfismála mun hún stýra umhverfisframkvæmdum bæjarins, s.s. í götum, opnum svæðum, fráveitu o.fl. Nanna mun ekki síst stýra starfi bæjarins við blágrænar fráveitulausnir samkvæmt fyrirliggjandi verkáætlun undir hatti LIFE-ICEWATER verkefnisins, sem fékk í vikunni stóran fjárstyrk frá Evrópusambandinu og bærinn mun vinna að næstu sex árin.
Nanna lauk B.Sc prófi í landslagsarkitektúr frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri 2021 og M.Eng í landslagsarkitektúr frá Weihenstephan-Triesdorf University of Applied Sciences í Freising í Þýskalandi fyrr á þessu ári. Auk þess er hún með diplómu í ferðamálafræði 2015. Hún starfar núna sem aðstoðarkennari í landslagsarkitektúr við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, þar sem hún býr með manni sínum og þriggja ára dóttur. Nanna hefur einnig sinnt starfi umsjónarmanns umhverfismála og útisvæða hjá Landbúnaðarháskólanum og í því starfi hélt hún utan um umhirðu grænna svæða og fleiri umhverfisverkefna, stýrði vinnuskóla ungmenna og vann í „Grænum skrefum“ og fleiru hjá Landbúnaðarháskólanum.
Nanna ólst upp í Grundarfirði til tvítugs, en foreldrar hennar fluttu hingað þegar hún var fjögurra ára. Nanna mun hefja störf í janúar að hluta til en að fullu frá 1. febrúar nk.
Heiðdís Lind Kristinsdóttir
Heiðdís Lind var í haust ráðin leikskólastjóri á Leikskólanum Sólvöllum, eftir að hafa starfað sem aðstoðarleikskólastjóri um hríð, auk þess sem hún var áður leikskólastjóri Sólvalla 2021-22. Heiðdís lauk B.Ed. gráðu í grunnskólakennslu yngri barna frá Háskóla Íslands 2018 og MT-gráðu frá Háskólanum á Akureyri með áherslu á mál og læsi. Hún starfaði við Bíldudalsskóla um fimm ára skeið og hóf störf í Leikskólanum Sólvöllum í júní 2021, þá sem deildarstjóri.
Sem leikskólastjóri leiðir Heiðdís spennandi starf Leikskólans Sólvalla í takt við nýja menntastefnu Grundarfjarðarbæjar, þar sem unnið er markvisst að því að efla faglegt innra starf skólans og innleiða gæðaviðmið um leikskólastarf, sem er í raun uppskrift að góðu leikskólastarfi sem hver skóli gerir að sínu.
Heiðdís er uppalin í Grundarfirði, þar sem hún býr með manni sínum og tveimur dætrum á leikskólaaldri.
Elvar Þór Gunnarsson
Elvar Þór hefur verið ráðinn sem bæjarverkstjóri Grundarfjarðarbæjar og hóf störf í áhaldahúsinu 5. desember sl.
Elvar Þór hefur vélstjórnarréttindi og skipstjórnarréttindi fyrir minni skip og báta og hefur lokið námi sem fisktæknir frá Fisktækniskóla Íslands. Hann hefur vinnuvélaréttindi og er kominn vel áleiðis í rafvirkjanámi. Elvar hefur unnið fjölbreytt störf á sjó og í landi. Nú síðast starfaði hann sem vélavörður/háseti á Farsæl SH 30, hann hefur verið skipstjóri á þjónustubát í laxeldi á Vestfjörðum, annast viðgerðir á vélum og tækjum tengt störfum sínum o.fl.
Elvar Þór er uppalinn í Öxarfirði, en býr í Grundarfirði með konu sinni, Heiðdísi Lind leikskólastjóra, og tveimur dætrum á leikskólaaldri.
Valgeir Þór Magnússon
Valgeir var ráðinn í 40% starfshlutfall sem slökkviliðsstjóri þann 1. september sl., en í ágúst sl. lét hann af störfum sem bæjarverkstjóri eftir 18 ára starf. Valgeir er enginn nýgræðingur í slökkviliðsmálum. Hann hefur starfað í slökkviliðinu í um 26 ár og sl. 17 ár hefur hann starfað sem slökkviliðsstjóri í innan við 10% starfi. Bæjarstjórn tók í lok júlí sl. ákvörðun um að styrkja slökkvilið og efla brunavarnir bæjarins, með því að auka stöðugildi slökkviliðsstjóra. Aukið stöðuhlutfall slökkviliðsstjóra mun þýða talsverða breytingu starfs slökkviliðsins og tækifæri til að sinna ýmsum málum með markvissari hætti.
Valgeir hefur lokið allri þeirri menntun sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun býður upp á fyrir slökkviliðsmenn; brunamálaskólann, stjórnendanám og eldvarnaeftirlit, auk fjölda sérhæfðra námskeiða sem hann hefur sótt, sem og stórar sameiginlegar æfingar með öðrum slökkviliðum. Valgeir er uppalinn í Grundarfirði og býr þar ásamt eiginkonu sinni, en þau eiga tvö uppkomin börn.
Þau Nanna Vilborg og Elvar Þór eru boðin velkomin til starfa hjá Grundarfjarðarbæ, og þau Valgeir Þór og Heiðdís Lind velkomin í breyttar stöður og verkefni hjá bænum. Fyrrverandi starfsmönnum, Valgeiri Þór sem verkstjóra til 18 ára og Margréti Sif Sævarsdóttur, fyrrverandi leikskólastjóra, eru jafnframt færðar þakkir fyrir þeirra störf.