Fulltrúar sveitarfélaganna fjögurra ásamt nýráðnum skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa í júlí sl.…
Fulltrúar sveitarfélaganna fjögurra ásamt nýráðnum skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa í júlí sl.
Mynd: Hrafnhildur Hallvarðsdóttir.

Ráðið hefur verið í nýjar stöður á sameiginlegu sviði umhverfis- og skipulagsmála hjá Eyja- og Miklaholtshreppi, Grundarfjarðarbæ, Helgafellssveit og Stykkishólmsbæ. Sveitarfélögin fjögur hafa sameinast um uppbyggingarverkefni innan stjórnsýslu með stofnun hins nýja sameiginlega sviðs.

Sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála

Kristín Þorleifsdóttir hefur hafið störf sem sviðsstjóri umhverfis- og skipulagsmála og er hún jafnframt skipulagsfulltrúi sveitarfélaganna fjögurra.

Kristín á ættir að rekja á Snæfellsnes, bæði í Stykkishólm og Grundarfjörð. Hún þekkir þar vel til og skrifaði m.a. meistararitgerð um sérstöðu gamla bæjarins í Stykkishólmi. Kristín lauk doktorsprófi í umhverfishönnun frá North Carolina State University í Bandaríkjunum 2008, meistaragráðu í landslagsarkitektúr frá sama háskóla 1999 og B.A. í myndlist frá Auburn University í Bandaríkjunum 1996.

Að loknu námi starfaði Kristín sem sérfræðingur, landslagsarkitekt og háskólakennari í um tólf ár. Árið 2014 flutti hún aftur til Bandaríkjanna þar sem hún gegndi stöðu háskólakennara við University of Wisconsin í Madison, sem talinn er vera meðal 30 bestu háskóla í heimi. Þar starfaði hún við kennslu og sem sérfræðingur í skipulagi smábæja með áherslu á heilsuhvetjandi umhverfi.

Byggingarfulltrúi

Fannar Þór Þorfinnsson hefur hafið störf sem sérfræðingur á sviði byggingarmála og yfirmaður verklegra framkvæmda, en hann kemur einnig til með að starfa sem byggingarfulltrúi sveitarfélaganna fjögurra.

Fannar er fæddur og uppalinn á Húsavík en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Grundarfjarðar nú í haust. Fannar lauk B.S prófi í byggingarfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2017, háskólaprófi í byggingariðnfræði frá sama skóla 2013 og sveinsprófi í húsasmíði frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 2009.

Að loknu námi starfaði Fannar m.a. við húsasmíði, sem byggingarfræðingur hjá Tækniþjónustu Vestfjarða og verkefnastjóri hjá tæknideild Ísafjarðarbæjar. Frá 2019 hefur Fannar starfað sem verkefnastjóri hjá THG Arkitektum í Reykjavík þar sem hann hefur haft umsjón með umfangsmiklum byggingarframkvæmdaverkefnum. Fannar hefur einnig unnið við kennslu í húsasmíði.

Kristín og Fannar verða með fasta viðveru í Ráðhúsinu Grundarfirði og Ráðhúsinu Stykkishólmi, auk viðveru í Eyja- og Miklaholtshreppi og Helgafellssveit eftir þörfum.

Annað starfsfólk

Á hinu nýja sviði umhverfis- og skipulagsmála munu síðan áfram starfa aðstoðarmenn skipulags- og byggingarfulltrúa í ráðhúsunum í Stykkishólmi og Grundarfirði. Verkefni sem unnin eru af áhaldahúsum og eignaumsjón sveitarfélaganna munu sömuleiðis heyra undir hið nýja svið.

--

Með breytingunum er ætlunin að styrkja enn frekar stjórnsýslu skipulags- og byggingarmála, umhverfisstarf sveitarfélaganna fjögurra, utanumhald eigna og eigin framkvæmda og ekki síst þjónustu við íbúa á viðkomandi sviðum.

Þeim Fannari Þór og Kristínu er óskað til hamingju með stöðurnar og þau boðin hjartanlega velkomin til starfa.