Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í þriðja skiptið í Grundarfirði nú um helgina. Sýnd verða 75 tónlistarmyndbönd og stuttmyndir frá 20 löndum en hátíðinni bárust í kringum 150 myndir frá 40 mismundandi löndum.

Hátíðin hefst formlega kl. 17:00 í Samkomuhúsi bæjarins og hefjast sýningar klukkustund síðar.

Í ár voru tvenn markmið sett hjá hátíðarhöldurum, það fyrsta að hafa frítt inn á alla viðburði og hið síðara að fá Grundfirðinga til að láta í ljós sína einstöku gestrisni og taka virkan þátt í hátíðinni. Þar sem að lítið er um kvikmyndargerðarmenn í Grundafirði verður haldin fiskisúpukeppni meðal þeirra en sjálfur sóknarprestur bæjarins, Aðalsteinn Þorvaldsson, sýndi gott fordæmi og var fyrstur til að skrá sig. Keppnin verður haldin á laugardagskvöldið og koma gestir hátíðarinnar til með að smakka á súpunum og greiða atkvæði um þá bestu. Má búast við harðri samkeppni enda Grundfirðingar margrómaðir fyrir eldhústakta.

Boðið verður uppá ókeypis tónleika bæði kvöldin en hljómsveitirnar Bárujárn, Quadruplos, DLX ATX og DJ Unnur Andrea munu sjá um tónlistina.

Hin margverðlaunaða Valdís Óskarsdóttir klippari og leikstjóri situr fyrir
svörum á laugardeginum og sýnir brot úr nýjustu mynd sinni Kóngavegi 7.
Ragnar Bragason er gestadómari hátíðarinnar í ár en Kristín Jóhannesdóttir
leikstjóri og Hilmar Örn Hilmarsson tónskáld sitja með honum í dómnefnd en
þau hafa verið í dómnefndinni frá upphafi.

Hátíðin hefur farið stækkandi á hverju ári en í fyrra fylltist öll gisting á svæðinu, bændagisting, farfuglaheimili Grundarfjarðar og Hótel Framnes. Vonast er til að þátttakan verði enn betri í ár.

Frekari upplýsingar um hátíðina, gistingu og samgöngur má finna á
www.northernwavefestival.com