- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nemendur frá vinabæ Grundarfjarðar, Paimpol í Frakklandi, hafa verið hér í bænum frá því á laugardaginn, 12. maí, og munu dvelja hér í vikutíma. Það eru fjölskyldur nemenda úr sjötta, sjöunda og áttunda bekk í Grunnskóla Grundarfjarðar sem hýsa gestina meðan á dvölinni stendur og er búið að gera heilmikla dagskrá fyrir alla vikuna.
Grunnskólinn hefur að mestu haldið utan um gerð dagskrárinnar ásamt nemendum og þeim foreldrum sem taka þátt í þessari góðu heimsókn. Þá kemur Grundapol, vinabæjafélag Grundarfjarðar og Paimpol einnig að dagskránni.
Nú þegar hafa frönsku nemendurnir komið í Deildatunguhver, farið í sund í Stykkishólmi, farið í skoðunarferð um Snæfellsnes og ýmislegt fleira. Framundan er skoðunarferð um Grundarfjörð á morgun, miðvikudag, Gullni hringurinn á fimmtudag, diskótek og fleira fyrir heimför. Það má búast við að það verði örþreyttir franskir skólakrakkar sem koma heim til Bretaníuskagans næsta laugardag, en vonandi líka alsælir með heimsóknina.