Frá miðvikudagshittingi í Sögumiðstöðinni á sl. ári
"Molakaffi og meðlæti" er yfirskrift samverustundar á miðvikudögum í Sögumiðstöðinni.
Dagskrá er á milli klukkan 14 og 16 en húsið opnar klukkan 13. Þar er mikið spjallað og dagskrá getur verið breytileg. Tónlistarskólanemendur koma annað slagið, listamenn líta við - en fastur punktur á hverjum hittingi eru ljósmyndir úr safni Bærings Cecilssonar og að drekka saman kaffi.
Grundarfjarðarbær hefur gengist fyrir átaki í skönnun ljósmynda Bærings og hluti af þeim afrakstri er sýndur á hverjum miðvikudegi í Bæringsstofu. Myndirnar ná yfir margra áratuga tímabil og spanna fjölbreytta viðburði og atburði úr daglegu lífi í Grundarfirði og Eyrarsveit. Það vakna því margar minningar við að skoða myndirnar og sagan lifnar við - til gamans bæði fyrir þau sem hér hafa alist upp, en líka skemmtilegt fyrir þau sem síðar hafa flust í bæinn og ekki þekkja til fyrri tíma hér.
Að gefnu tilefni er minnt á að þessar samverustundir eru fyrir alla bæjarbúa - ekki bara eldri íbúana, sem hafa verið dugleg að mæta. Einnig má taka með gesti.
Dagskrá í Sögumiðstöðinni er annars að
finna hér.
Þar er meðal annars:
- Á mánudögum kl. 14-16: Spiladagur, sjá frétt hér - meðan Vinahúsið er í fríi (en það er í umsjón Rauða kross deildarinnar í Grundarfirði)
- Á þriðjudögum kl. 13-16: Saumahittingur, handverksfólk -
- Á miðvikudögum kl. 13-16: Molakaffi og meðlæti
- Á fimmtudögum kl. 14-17: Karlakaffi - allir strákar, á öllum aldri, velkomnir