Minningartónleikar um Sigrúnu Jónsdóttur skólastjóra Tónlistarskóla Stykkishólms og fyrrum organista og kórstjóra Stykkishólmskirkju verða haldnir í Stykkishólmskirkju sunnudaginn 19. mars n.k. og hefjast tónleikarnir kl. 16:00.

 

Sigrún var fædd í 21. desember 1968 en lést  5. september 2004 úr krabbameini.   Sigrún starfaði sem organisti og sem kennari og síðar sem skólastjóri tónlistarskólans á árunum 1996 til dauðadags.  Sigrún stundaði tónlistarnám á Íslandi og Englandi. Hún starfaði mikið með kórum bæði í London og  víðsvegar um landið.  Sigrún var mikil kirkjumanneskja og bar starf hennar vott um smekkvísi og tilfinningu fyrir hinu kirkjulega starfi.

 

Það var Sigrúnu mikið hjartans mál að Stykkishólmskirkja fengi nýtt orgel og lagði hún hönd á plóginn í starfi sínu við kirkjuna með því m.a. að halda styrktartónleika þar sem ágóði rann í orgelsjóð.  Vinir og samstarfsmenn Sigrúnar og Hólmgeirs koma fram á tónleikunum sem marka mun upphaf söfnunarátaks um nýtt orgel í Stykkishólmskirkju og er markmiðið að hægt verði að vígja nýtt orgel í árslok 2008 en þá hefði Sigrún orðið fertug.  Dagskrá tónleikanna er mjög glæsileg og verður fjölbreytt efnisskrá flutt af landsþekktum listamönnum ásamt heimafólki.  Meðal tónlistarmanna sem koma fram eru Sigríður Ella Magnúsdóttir mezzosópran, Gunnar Guðbjörnsson tenór, Nína Margrét Grímsdóttir píanó, Sigurður Halldórsson selló,  Kristinn Örn Kristinsson píanó,  Ármann Helga-son klarinett, Ingibjörg Þorsteinsdóttir píanó, Hallfríður Ólafsdóttir flauta, Hólmfríður Friðjónsdóttir, sópran, Martin Markvoll, trompet, Jóhanna Guðmundsdóttir, píanó, Aðalheiður Þorsteinsdóttir, píanó, Jón Svanur Pétursson, víbrafónn, Daði Þór Einarsson, básúna,   Hafsteinn Sigurðsson, klarinett, harmonika, Lárus Pétursson, bassi, Hafþór Guðmundsson, trommur, Jósep Ó. Blöndal, píanó, Eydís Franzdóttir, óbó, Kór Stykkishólmskirkju auk fjölda annarra. Tónlistin sem flutt verður er af ýmsu tagi, létt og sígild, íslensk og erlend.

 

Aðgangur er ókeypis en frjáls framlög í orgelsjóð kirkjunnar eru vel þegin. Einnig hefur Orgelsjóður Stykkishólmskirkju gefið út minningar- og gjafakort í fjáröflunarskyni til fyrirhugaðra orgelkaupa. Framlög eru frjáls og verða kortin áfram til sölu eftir tónleikana.

 

Mætum vel og leggjum þannig góðu málefni lið.