- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Miðvikudagar í Sögumiðstöðinni
Grundarfjarðarbær í samstarfi við Félag eldri borgara og Grundarfjarðardeild RKÍ hafa boðið upp á Molakaffi að morgni, opið hús í Sögumiðstöðinni, frá því í júlí sl. Breyting varð á núna í upphafi september og færðist þessi samverustund yfir í að vera eftir hádegi. Molakaffið var líka uppfært og er núna kaffi og vöfflur - eða þá pönnukökur. Framtakið hefur fengið góðar móttökur og vaxandi fjöldi fólks sækir þessa líflegu stund.
Síðastliðinn miðvikudag, þann síðasta í september, fékk hópurinn kærkomna heimsókn frá tónlistarskólanum. Linda María Nielsen kom ásamt tveimur söngnemendum sínum, þeim Ellen Alexöndru Tómasdóttur og Thelmu Dís Ásgeirsdóttur, en þær eru söngnemendur hjá Lindu. Það er skemmst frá því að segja að ungu söngkonurnar og kennari þeirra slógu svo sannarlega í gegn hjá miðvikudagsgestunum. Til stendur að einhverja miðvikudaga komi heimsókn frá tónlistaskólanum, en einnig er von á fleiri góðum gestum í miðvikudagsheimsókn.
Í sumar hefur staðið yfir á vegum Grundarfjarðarbæjar vinna við að skanna ljósmyndir úr safni Bærings Cecilssonar. Talsverður fjöldi mynda hefur verið skannaður, til viðbótar við myndir sem áður höfðu verið skannaðar. Því hefur myndast tilvalið tækifæri í hittingnum á miðvikudögum til þess að bregða upp nýskönnuðum myndum, rifja upp gamlan tíma og „spögulera“ saman.
Undanfarið hefur miðvikudagshópurinn horft á myndirnar í sjónvarpi eða myndvarpa. Nú fer hins vegar alveg að koma að því að hægt sé að sitja í Bæringsstofu og njóta þess að horfa á myndir Bærings á stóra tjaldinu, í nýbólstruðum stólum og uppgerðum sal.
Félag eldri borgara í Grundarfirði var með kynningarfund um tölvunámskeið síðastliðið mánudagskvöld. Mætingin var heldur dræm svo við sjáum til hvort ekki verður önnur kynning fljótlega. Fyrirhugað var að bjóða uppá námskeið fyrir eldri borgara, ekki endilega tölvunámskeið heldur leiðsögn um hvernig við getum t.d. notað snjalltækin okkar; síma eða lófatölvur. Þessi tæki hafa ótal möguleika sem gaman er að geta nýtt sér, eins og til að mynda að hafa samband í mynd við ættingja, vini og þá sérstaklega barnabörnin sem eru flest snillingar í þessari tækni. Það er líka hægt að hafa samband við nokkra í einu! Að hugsa sér að sitja í sinni stofu og eiga myndsamtal við nokkra vini á sama tíma! Eldra fólk getur alveg lært það, rétt eins og það yngra og við hvetjum fólk til að fylgjast vel auglýsingum um þetta. Loftur Árni Björgvinsson kennari í FSN og umsjónarmaður rafíþrótta hjá UMFG tók að sér að vera leiðbeinandi.
Eins og áður sagði er Ingi Hans að vinna að því að koma Sögumiðstöðinni í skemmtilega mynd. Endurbætur hafa m.a. staðið yfir á rými og aðstöðu í Bæringsstofu og senn líður að því að nota megi salinn. Ingi er nú búinn að sækja bök og sæti til Reykjavíkur úr bólstrun, en sjálfur hefur hann hannað og smíðað arma á stólana og kemur það virkilega vel út. Gera má ráð fyrir að salurinn verði enn betur nýttur þegar allt verður tilbúið. Auk þess er aðalrýmið frammi nú þegar komið í notkun fyrir ýmisskonar félagsstarf.
Það er Olga Sædís Aðalsteinsdóttir sem hefur unnið að skönnun á ljósmyndum Bærings og m.a. haft veg og vanda af því að velja Sjöu vikunnar, sjö nýskannaðar ljósmyndir sem Grundarfjarðarbær hefur birt í upphafi hverrar viku síðan í júlí sl. Auk þess er Olga tengiliður við félagasamtök vegna félagsstarfs eldri borgara sem er í auknum mæli að færast inní Sögumiðstöðina og hefur hún umsjón með Molakaffinu og fleiri viðburðum sem eldri borgarar taka þátt í.
Allir eru hjartanlega velkomnir á miðvikudagshitting. Húsið opnar klukkan 13, síðan er dagskrá í gangi frá klukkan 14:00 til 16:00.
Smellið á myndirnar til að stækka þær.