Hin árlegu verðlaun fræðslu- og menningarmálanefndar, Helgrindur,  voru veitt um síðustu helgi. Verðlaunin eru veitt fyrir óeigingjarnt starf í þágu menningar í Grundarfirði. Að þessu sinni hlaut starfsfólk tónlistarskólans verðlaunin.

 

Við tónlistarskólann starfa Þórður Guðmundsson skólastjóri, Ari Einarsson, Baldur Orri Rafnsson og Alexandra Suhkova, og hafa þau starfað við skólann frá 2005.

 

Nemendur við skólann eru nú rúmlega 100. Fyrir utan hefðbundna kennslu eru árlega haldnir tónleikar á vegum skólans, jólatónleikar og vortónleikar. Á fyrstu tónleikanna mættu 30 áhorfendur en á þá síðustu 260 áhorfendur þannig að starfið hefur farið vaxandi jafnt og þétt.

 

Í skólanum er lögð mikil áhersla á samspil nemenda sem og kennara og við skólann eru starfandi tvær skólahljómsveitir og lúðrasveit sem stofnuð var í janúar á þessu ári. Þórður er stjórnandi eldri skólahljómsveitar, Alexandra er stjórnandi yngri skólahljómsveitar og Baldur er stjórnandi lúðrasveitar.

 

Nú í vetur var hafið samstarf við framhaldsskólann um Tónsmiðju sem var áfangi í framhaldsskólanum og Ari var kennari við þann áfanga.

 

Einnig er samstarfsverkefni milli Tónlistarskólanna í Grundarfirði og Stykkishólmi sem er

Trommusveit Snæfellsness og þar eru Baldur Orri og Martin Markvoll stjórnendur en sveitin

æfir skrúðgöngutakta meðal annars.

 

Þess má einnig geta að Þórður og Baldur tóku sig til árið 2007 og gáfu út disk í tengslum við bæjarhátíðina Á góðri stund og fengu til liðs við sig unga og aldna Grundfirðinga. Ágóðinn af sölu disksins rann til Krabbameinsfélags Snæfellsness. Félagarnir sömdu einnig hátíðarlagið Á góðri stund.

 

Starfsfólk tónlistarskólans er því í góðri sveiflu og stefnir að enn stærri hlutum á komandi árum. Nú á dögunum var ráðinn til starfa fimmti kennarinn við tónlistarskólann og gaman verður að sjá hvernig stækkun skólans verður á komandi skólaári.