- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Menningarstarf í júní
Leikskólinn í heimsókn á bókasafnið
Bókasafn Grundarfjarðar hefur verið í skemmtilegu samstarfi við Leikskólann Sólvelli síðan í mars sl. Einu sinni í viku kemur skemmtilegur hópur leikskólakrakka til að lesa, lita og leika sér á bókasafninu. Fimm ára börn af Eldhamradeildinni komu einnig í heimsókn á dögunum, fyrir sumarfrí.
Listasýning Litagleðinnar
Hópur áhugafólks um myndlist á Snæfellsnesi setti upp listasýningu í júní á sýningarvegg Sögumiðstöðvarinnar. Undanfarnar vikur hefur hópurinn einmitt hist í Sögumiðstöðinni til að mála saman og er hann opinn öllum. Samstarfið mun halda áfram í haust.
Hátíðardagskrá 17. júní
Þjóðhátíðardagur Íslendinga var haldinn hátíðlegur þann 17. júní sl. Uppskeruhátíð UMFG var á sínum stað fyrr um daginn og eftir það tók við skrúðganga að hátíðarsvæðinu þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Á sviðinu fór Garðar Svansson með hátíðarræðu, sr. Laufey Brá Jónsdóttir var fjallkonan og fór með frumsamið ljóð eftir Lilju Magnúsdóttur og hópurinn Let’s come together var með ávarp. Einnig voru söngatriði frá Sylvíu Rún og Skólakór Grunnskóla Grundarfjarðar. Trommusveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar leiddi skrúðgönguna og var einnig með atriði á sviðinu. Boðið var upp á bollakökur, kaffi og bókina Fjallkonan í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins. Hoppukastali, loftboltar, hestateyming og andlitsmálning var í boði á hátíðarsvæðinu ásamt því að Grundarfjarðarbær bauð upp á ís fyrir alla krakka. Einnig var Blossi með sjoppuna á sínum stað í íþróttahúsinu, allskonar fyrirtæki voru með tilboð yfir daginn og frítt var fyrir alla í sund. 17.júní nefndin þakkar fyrir mjög góða mætingu og stuð!
Sundlaugarpartý
17. júní nefndin í samstarfi við Ungmennaráð Grundarfjarðar hélt sundlaugarpartý fyrir krakka á þjóðhátíðardaginn. Krökkum í 5. til 10. bekk var boðið í fatasund með tónlist, leikjum og frítt krap var í boði. Ungmennaráði er þakkað fyrir samstarfið og öllum sem tóku þátt!
Opið hús á 17. júní
Allir voru velkomnir í kleinur og kaffi á þjóðhátíðardegi Íslendinga í Sögumiðstöðinni. Skyggnusýning með ljósmyndum frá eldri hátíðarhöldum Grundfirðinga á 17. júní var í gangi í Bæringsstofu, ásamt því að listasýning Litagleðinnar prýddi sýningarvegginn. Margir komu í heimsókn, takk fyrir komuna!
Fögnuður fyrir 20 ára vinabæjarafmæli Grundarfjarðarbæjar og Paimpol
Þann 19. júní sl. var boðið til fögnuðar í Sögumiðstöðinni í tilefni af væntanlegu 20 ára vinabæjarafmæli Grundarfjarðarbæjar og Paimpol. Marie Madeleine Geffroy, fyrsti formaður Grundapol félagsins í Paimpol, var í heimsókn hér í Grundarfirði ásamt eiginmanni sínum, Yves, en hún hefur komið hingað þó nokkrum sinnum. Tækifærið var notað til að veita Marie Madeileine þakklætisvott fyrir óeigingjarnt starf að uppbyggingu vinabæjarsamstarfsins, fyrir vináttu og stuðning.
Fulltrúi franska sendiráðsins á Íslandi, Patrick Le Menes, kom einnig í heimsókn og var viðstaddur. Minnst var vinabæjarsamskiptanna með góðum ræðum og skyggnusýning með ljósmyndum rúllaði í Bæringsstofu. Fulltrúar úr bæjarstjórn, menningarnefnd, stjórn Grundapol félagsins í Grundarfirði og aðrir gestir voru viðstaddir. Í tengslum við vinabæjaafmælið mun hópur Grundfirðinga fara til Paimpol í október í heimsókn, en Grundapol í Paimpol hefur veg og vanda að veglegri afmælisdagskrá þar ytra.
Perlufjör
Það voru allir velkomnir í perlufjör í Sögumiðstöðinni þann 26. júní. Viðburðurinn var fyrir alla fjölskylduna, unga sem aldna! Heitt á könnunni og kósýheit. Takk innilega fyrir mjög góða mætingu, en um 30 manns mættu til að eiga góða stund saman.
Sumarlestur og lengdur opnunartími á Bókasafni Grundarfjarðar
Bókasafn Grundarfjarðar hvetur alla krakka til að setja á sig ofurhetjuskikkjuna og taka þátt í sumarlestri bókasafnanna. Það er hægt að nálgast sumarlestursheftið hjá okkur á lengdum sumaropnunartíma, frá 14:00-17:00 - mánudaga til fimmtudaga. Í heftinu er safnað límmiðum eftir hverja lesna bók sem krakkarnir fylla inn í ofurhetjuspilið. Við munum svo fagna frábærum árangri hjá þeim krökkum sem koma og skila inn kortinu til okkar. Hægt verður að skila inn kortinu til 20. ágúst nk. og dregið verður til verðlauna.
Fundur um Snæfellsnes
Svæðisgarðurinn Snæfellsnes, í samstarfi við Snæfellsjökulsþjóðgarð, bauð til kynningar og umræðufundar í Sögumiðstöðinni þann 4. júní sl. Efnt var til kynningarfunda víða um Snæfellsnes vegna umsóknarferlis til UNESCO um að Snæfellsnes verði fyrsti Vistvangurinn (Man and Biosphere) á Íslandi. Verkefnið byggir á áralöngu samstarfi sveitarfélaganna á Snæfellsnesi í umhverfis- og samfélagsmálum.
Gönguhópur eldri borgara
Eftir að vetrarstarf eldri borgara fór að mestu í sumarfrí, hefur hópur eldri borgara hist í Sögumiðstöðinni alla þriðjudaga og fimmtudaga. Þaðan leggur hópurinn af stað í göngutúr um bæinn og að lokinni göngu tyllir hópurinn sér aftur inn í Sögumiðstöðinni yfir góðum kaffibolla. Hópurinn ætlar að halda þessum gönguhittingum í sumar og hann er opinn öllum eldri borgurum – allir aðrir einnig velkomnir með!
Breytingar á Bókasafni Grundarfjarðar
Undanfarna mánuði hefur staðið yfir mikil grisjun bóka og skipulagsbreytingar á bókasafninu. Stendur til að opna rýmið meira fyrir gesti bókasafnsins og skapa notalega aðstöðu fyrir alla sem heimsækja bókasafnið. Bókasöfn eru staður fyrir alla, hvort sem það er kósý staður til að lesa góða bók, fá lánaðar bækur heim, mæta með krakkana eftir leikskóla til að lesa og lita, leita upplýsinga fyrir lærdóm, hittast til að spjalla eða annað. Með betra plássi fyrir börn og fullorðna vonumst við til að geta tekið á móti sem flestum. Sumaropnunartími Bókasafns Grundarfjarðar er á mílli 14:00-17:00 frá mánudögum til fimmtudaga. Sumarlokun á bókasafninu verður frá 31.júlí – 21.ágúst.
Hægt er að fylgjast með öllum helstu viðburðum í fréttum og viðburðadagatali á vef Grundarfjarðarbæjar. Einnig er þeim deilt á Facebook-síðu bæjarins og við hvetjum fólk einnig til að fylgjast með öllu því nýjasta á nýjum Instagram-miðli bæjarins, sem ber nafnið menning_grundarfjordur.
Ert þú með menningarlegan viðburð sem þig langar að halda í samstarfi við Bókasafn Grundarfjarðar, Sögumiðstöðina eða Bæringsstofu? Endilega hafðu samband við Láru Lind forstöðumann bókasafns og menningarmála í gegnum netfangið menning@grundarfjordur.is