Græn vin í Grundarfirði - mynd teiknuð af listakonunni Ingu Björnsdóttur.
Græn vin í Grundarfirði - mynd teiknuð af listakonunni Ingu Björnsdóttur.

Nú er komið að því kæru íbúar! 

Í sumar verður boðið uppá matjurtagarða innan bæjarmarkanna. Einnig stendur til að byggja skemmtilegan "krakkabæ"!  

Grundarfjarðarbær hefur samið við RARIK og Landsnet og í sumar nýtum við aðstöðu við gömlu aðveitustöðina, efst á Borgarbraut - ofan við sundlaugina og ærslabelg. Á lóðinni var áður spennivirki sem þjónaði háspennustreng milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur, en hefur nú verið aflagt, með tilkomu nýrrar aðveitustöðvar austur undir Kverná og með því að háspennulínan hefur verið lögð í jörðu. Svæðið fær því nýtt og grænna hlutverk.

Grenndargarðar

Innan girðingar á lóðinni ætlum við annars vegar að setja upp matjurtabeð þar sem íbúar geta leigt aðstöðu og ræktað sitt eigið grænmeti og aðrar jurtir. Einnig munu leik- og grunnskólabörn fá þar sameiginleg beð og aðstöðu til að rækta eitthvað skemmtilegt. Útfærsla grenndargarða mun að verulegu leyti byggja á starfi áhugasamra sjálfboðaliða, sem vilja taka þátt í að byggja upp samfélag um ræktun.  

Hafir þú áhuga á matjurtabeði eða frekari upplýsingum um grenndargarða, þá máttu heyra í henni Signýju Gunnarsdóttur eða senda henni skilaboð í netfangið gigny@hotmail.com, en það er einmitt hún sem kom tillögu um grenndargarða á framfæri við bæjarráð, sem samþykkti að vinna að hugmyndinni. 

Smíðavöllur - kofabyggð

Að auki munum við nýta hluta svæðisins og setja upp smíðavöll fyrir unga byggingarmeistara. Innan girðingar verður hægt að byggja kofa af ýmsum gerðum. Grundarfjarðarbær mun á næstunni leita eftir umsjónarfólki til aðstoðar við kofabyggðina og leita eftir samvinnu við foreldra og aðra áhugasama um nánari útfærslu á þessu. 

Þessi verkefni eru enn í mótun og því viljum við bjóða áhugasömu fólki - á öllum aldri - að kíkja á okkur uppvið gömlu aðveitustöðina við Borgarbraut 21, mánudaginn 10. maí nk. kl. 17.30, skoða aðstöðuna og leggja hugmyndir inní undirbúningsstarfið. 

 

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá kofabyggðinni "Kirkjufellsbæ" sumarið 1996. 

Krakkar í kofabyggð árið 1996Krakkar í kofabyggð 1996

 

 

 

 

 

 

Krakkar í kofabyggð 1996Aðveitustöð verður gróðrarstöð