- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Grundarfjarðarbær stendur fyrir skapandi listavinnuskóla í ágúst.
Listavinnuskólinn er unninn í samstarfi við Samtök Sveitarfélaga á Vesturlandi og er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands. Starfsfólk vinnuskóla er á aldrinum 13-16 ára (7. til 10. bekkur á komandi skólaári) og hafa þau starfað við fegrun og umhirðu svæða innan sveitarfélagsins, fyrr í sumar. Með Listavinnuskólanum gefst tækifæri til viðbótarvinnu við skapandi greinar og ætlar Grundarfjarðarbær að nýta tækifærið til að byggja upp og fegra miðbæjarsvæðið (kringum "víkingasvæði", Prjónað á plani, Mæstró og svæðið þar fyrir ofan). Ætlunin er að nýta hugmyndafræði sem kennd er við "torg í biðstöðu", sem snýst um að skapa meira líf og ánægjulegri nýtingu á svæðum, með tímabundnum lausnum - oft kallað að endurskilgreina svæði.
Markmið þessa verkefnis er að búa til enn skemmtilegra, hampa því óvænta, vera vettvangur róttækra tilrauna með umhverfið og gera svæði meira aðlaðandi þannig að fleiri vilji nýta.
Starfsfólk vinnuskólans mun vinna hugmyndavinnu undir leiðsögn Helenu og Mykola, læra að framkvæma þær hugmyndir og skila þeim af sér, hvort sem það eru bekkir, borð, útilistaverk eða annað sem þau væru til í að sjá í þessu rými.
Ríkey Konráðsdóttir fyrir hönd Grundarfjarðarbæjar mun halda utan um verkefnið, útvega efnivið og verkfæri sem þarf í verkefnið í samvinnu við leiðbeinendurna.
Unnið er frá 8. til 16. ágúst nk. frá 11:00 - 15:00.
Sjá nánar um Vinnuskólann 2023 - reglur og starfskjör.
Laun 2023 eru þannig:
|
Tímakaup |
7. bekkur (fæðingarár 2010) |
1.100 kr. |
8. bekkur (fæðingarár 2009) |
1.222 kr. |
9. bekkur (fæðingarár 2008) |
1.467 kr. |
10. bekkur (fæðingarár 2007) |
1.711 kr. |
Umsóknareyðublöð má nálgast á bæjarskrifstofu eða prenta út hér.
Það má skila inn umsóknum rafrænt á netfangið rikey@gfb.is eða skila útfylltu blaði á bæjarskrifstofu.