- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Það hefur verið líflegt tómstunda- og íþróttastarf hjá börnum í Grundarfirði í sumar.
Styrkur úr Barnamenningarsjóði
Í júní kom í ljós að umsókn Grundarfjarðarbæjar í Barnamenningarsjóð var samþykkt og fær bærinn 2 milljónir króna í styrk til listastarfs með börnum í sumar og haust. Þetta er mjög ánægjulegt og gerir okkur kleift að gera enn betur í listatengdu starfi með börnum og ungmennum.
Sumarnámskeið
Sumarnámskeið barna stóð í þrjár vikur í júní og síðari hlutinn verður í ágúst, í eina og hálfa viku, þ.e. frá mánudeginum 8. ágúst til og með miðvikudegi 17. ágúst, en skólasetning grunnskólans er föstudag 19. ágúst. Námskeiðin eru fyrir börn fædd 2010-2016. Milli 20-30 börn tóku þátt í júní og í ágúst eiga Edhamrabörnin - sem hefja nám í 1. bekk í ágúst - einnig kost á að bætast við og taka þátt í námskeiðinu.
Eglé Sipaviciute er umsjónarmaður námskeiðsins eins og lesa má í þessari frétt. Við erum mjög lánsöm að hafa fengið Eglé til starfa og þemað í ár er listsköpun og leikir. Krakkarnir fá að spreyta sig í fjölbreyttum heimi listsköpunar og unnið er með ýmsa miðla, þar sem reynir á hugmyndaflug barnanna.
Það hefur gengið erfiðlega að manna stöður aðstoðarfólks á námskeiðinu og við leitum nú að aðstoðarfólki fyrir ágústhlutann. Ef þú hefur tök á að gerast aðstoðarmaður (8 vinnudagar) þá má leggja inn umsókn hér.
Í komandi viku verður hægt að sækja um fyrir börn í ágústhluta námskeiðsins og kemur frétt á vefinn um það.
Kofasmiðja
Kofasmiðja, smíðanámskeið fyrir börn, var haldið í tvær vikur í júní, undir stjórn Togga, Thors Kolbeinssonar. Um 13 krakkar úr 4.-6. bekk sóttu námskeiðið, sem haldið var á svæðinu innan girðingar gömlu spennistöðvarinnar efst við Borgarbraut.
Kofasmíðin gekk mjög vel undir góðri stjórn Togga og voru smiðirnir mjög ánægðir með afraksturinn. Hugmyndaflugið og sköpunarkrafturinn fékk að njóta sín hjá krökkunum og þau smíðuðu sér ekki bara hús heldur líka húsgögn inní þau og fleira. Krakkarnir voru mög úrræðagóðir og útsjónarsamir, að sögn Togga.
Við viljum þakka fólki fyrir það byggingarefni sem við fengum gefins, spýtur í kofasmíðina, þökkum öllum smiðum fyrir þátttökuna og Togga fyrir ánægjulegt samstarf.
Smellið á myndirnar til að stækka þær og lesa myndatexta.
Vegglist í ágúst
Í ágústmánuði verður boðið uppá „vegglistanámskeið“, þar sem Dagný Rut Kjartansdóttir mun leiða börn og ungmenni í myndlistartengdri dagskrá. Dagný útskrifaðist í júní sl. sem myndlistarkennari og tekur til starfa í grunnskólanum í ágúst nk. Ætlunin er að fara í skapandi vinnu við að gera vegglistaverk víða í bænum og verður þetta kynnt betur á allra næstu dögum.
Vinnuskólinn
Vinnuskólinn starfaði í fimm vikur fyrir börn/ungmenni í 7. til 10. bekk grunnskóla.
Hér má lesa sérstaka frétt um starf vinnuskólans sumarið 2022.
UMFG
Samkvæmt upplýsingum frá Sirrý, formanni Ungmennafélags Grundarfjarðar, eru í sumar æfingar á vegum félagsins í fótbolta, frjálsum íþróttum, rafíþróttum og sundi. Æfingar hófust 7. júni og standa til 15. júlí, en þá er gert tveggja vikna sumarfrí og síðan eru æfingar í þrjár vikur eftir verslunarmannahelgina og fram að skólabyrjun.
Sirrý segir einnig: "Iðkendur frá Grundarfirði taka síðan þátt í fótboltastarfi á vegum Snæfellsnessamstarfsins. Okkar krakkar fóru á öll stóru fótboltamótin sem í boði hafa verið; m.a. Orkumótið í Eyjum, N1 á Akureyri og Símamótið í Kópavogi, Norðurálsmótið á Akranesi og smábæjarleikana á Blönduósi. Hluti af iðkendum okkar eru að keppa á Íslandsmótinu í fótbolta með sínum flokkum. Við erum með flotta þjálfara í öllum greinum hjá okkur; Kristín Halla þjálfar frjálsar, Guðbrandur Gunnar (Gunni á Bjargarsteini) er með sund, Anel og Kristín Halla sjá um fótboltann og Sigurður Heiðar og Arnar Breki sjá um æfingar í rafíþróttum."
Golfklúbburinn Vestarr
Golfklúbburinn Vestarr Grundarfirði (GVG) tekur á móti börnum af sumarnámskeiði Grundarfjarðarbæjar tvisvar á sumri. Vinnuskólanemendur koma einnig árlega, í einn dag - þau vinna létt störf á vellinum, fá fræðslu og fá að prófa að spila golfleiki.
Að sögn Garðars formanns GVG er hugmynd hjá GVG að halda þrjú mót í barna- og unglingaflokki í ágústmánuði nk. Á nýloknu meistarmóti GVG var einn 10 ára keppandi og er nokkuð langt síðan við höfum haft keppanda í yngri flokkum, að sögn Garðars.
Hesteigendafélag Grundarfjarðar
Hjá Ernu og Heiðari Þór formanni Hesteigendafélagsins fengust þær upplýsingar að á haustin hafi verið boðið uppá hestaval í samstarfi við grunnskólann, þar sem nemendum er boðið að vera hestamenn í ákveðinn tíma undir leiðsögn. Ekki er skipulagt sumarstarf á vegum félagsins en boðið er uppá reiðkennslu fyrir unga keppendur í félaginu yfir vetrartímann, meðan á stórum mótum stendur - einkum er það þó á vegum Hestamannafélagsins Snæfellings.
Uppskeruhátíð og þjóðhátíð
Á 17. júní í ár mættu félagar í Hesteigendafélaginu og teymdu hesta sína undir börnum sem fengu að prófa að fara á hestbak.
Það er líka löng hefð fyrir því að Ungmennafélag Grundarfjarðar haldi Grundar- og Kvernárhlaup á 17. júní. Í ár var engin undantekning á því og ennfremur hélt félagið sundmót á þjóðhátíðardaginn. Að sögn Sirrýjar formanns UMFG var sérstaklega góð þátttaka í Kvernárhlaupinu og sundmótinu í ár og var gaman að fá krakka sem voru gestir á tjaldsvæðinu okkar til að taka þátt með heimakrökkunum. UMFG hefur síðustu ár nýtt þjóðhátíðardaginn til að halda uppskeruhátíð félagsins og setur það skemmtilega stemningu á uppskeruhátíðina og lífgar auk þess upp á þjóðhátíðardaginn. Á uppskeruhátíðinni 17. júní sl. gaf UMFG iðkendum sínum "folfdiska" með hvatningu til þeirra um að prófa folfvöllinn í Grundarfirði. Nánar um hann hér.
Myndir: af kofanámskeiði Toggi og Björg, af þjóðhátíðardegi Tommi.