- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í Leikskólanum Sólvöllum er unnið að ýmsum þáttum sem miða að því að gera starfið enn betra, skilvirkara og þróa áfram starfshætti með það að markmiði að auka gæði leiks, náms og starfsumhverfis.
Leikskólinn fær beinan stuðning frá skólaþjónustu Ásgarðs við að útfæra leikskólastarfið, áætlanagerð, kennslu- og stjórnendaráðgjöf, við útfærslu leiða í átt að markmiðum, auk þess sem starfsfólk fær aðstoð við að framkvæmd gæðaleikskólastarfs, byggt á aðalnámskrá og lögum um leikskóla.
Stefna skólans birtist í skólanámskrá sem vert er að kynna sér hér á heimasíðu leikskólans. Í vor byrjaði skólinn að innleiða gæðaviðmið um leikskólastarf sem má kynna sér hér. Gæðaviðmið eru eins konar uppskrift að góðu leikskólastarfi sem hver skóli gerir að sínum. Gæðaviðmiðin eru svo útfærð með gátlistum sem ráðgjafi útbýr í eftirtöldum flokkum:
Kerfisbundið eru gæðaviðmiðin innleidd með því að þræða þau í gegnum allt starfið. Notaðar eru m.a. kannanir, rýni á fundum og margt fleira til þess að finna út hvort skólinn sé að mæta þeim viðmiðum sem lagt er upp með í leikskólastarfi á Íslandi og birtist í skólastefnu Grundarfjarðarbæjar (frá 2014, verður endurskoðuð 2023) og í skólanámskrá leikskólans.
Á starfsmannafundi í nóvember fór starfsfólk í gegnum hluta gæðaviðmiða um uppeldis- og menntastarf. Þar er m.a. fjallað um dagskipulag, um starfshætti og hvernig markmið skólanámskrár birtast í starfinu. Úr þeirri vinnu kom m.a. í ljós að þörf er á að útfæra skólanámskrá enn frekar í deildarnámskrám og útbúa gátlista um þær leiðir sem eru mögulegar í átt að því sem leikskólinn stendur fyrir. Ráðgjafi Ásgarðs gerir drög að deildarnámskrá og setur upp þannig að einfalt sé fyrir starfsfólk, jafnt faglærða sem ófaglærða, að tileinka sér starfshætti og leiðir sem auka gæði leikskólastarfsins. Þegar deildanámskrár verða tilbúnar verður þeim deilt með foreldrum sem geta þá séð enn frekar hvaða starf er lagt upp með á deildum, fyrir hverju leikskólinn stendur og hvernig starfið er útfært út frá aðalnámskrá leikskóla.
Ráðgjafar Ásgarðs funda svo reglulega með stjórnendateymi skólans (leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri, deildarstjórar) til þess að styrkja stjórnendur í að útfæra markmiðin með öllu starfsfólki.
Samhliða þessum umbótum og rýni á starfinu verður sett upp áætlun um innra mat skólans en með innra mati (sjá leiðbeiningar hér) er átt við sjálfsmat stofnunar og er það unnið af starfsfólki hennar. Markmið innra mats er að tryggja að starfsemi skólans sé í samræmi við lög, reglugerðir og aðalnámskrá. Grundvallaratriði innra mats er að það stuðli að umbótum sem bæti skólastarfið og efli skólaþróun. Stofnað verður matsteymi, búin til langtímaáætlun og ársáætlun, lagðar fyrir kannanir meðal starfsfólks og foreldra auk annarra gagna sem munu nýtast skólanum við að rýna í sitt starf og sjá hvar hann stendur gagnvart þeim viðmiðum sem lagt er upp með.
Sem sagt, það er mikið í gangi hvað varðar endurskoðun innra starfs með áherslu á innleiðingu gæðaviðmiða, gerð deildarnámskrár og aukinnar handleiðslu við að útfæra gæðaleikskólastarf. Við munum fræða ykkur enn frekar um framvinduna og á dagskrá er að halda opinn fund fyrir foreldra um leikskólastarfið og þær umbætur sem við erum byrjuð á. Á þeim fundi verður ráðgjafi frá Ásgarði skólaráðgjöf sem fræðir og ræðir enn frekar um hvar við erum stödd og hvert við erum að stefna.
Frá stjórnendum Leikskólans Sólvalla og ráðgjöfum Ásgarðs