Umsjónarmaður fasteigna
Laust er til umsóknar starf umsjónarmanns fasteigna hjá Grundarfjarðarbæ.
Næsti yfirmaður er tæknifræðingur/skipulags- og byggingarfulltrúi.
Helstu störf umsjónarmanns fasteigna er umsjón með rekstri og viðhaldi húseigna Grundarfjarðarbæjar. Hann sinnir léttu viðhaldi og semur við verktaka um framkvæmd annars viðhalds í samráði við yfirmann. Hann sér um samskipti við leigjendur húseigna í eigu eða umsjón bæjarins og metur þörf á endurbótum og viðhaldi í samráði við byggingarfulltrúa.
Hann aðstoðar við undirbúning og gerð fjárhagsáætlana og gerir langtímaáætlanir um viðhald og endurbætur. Hann aðstoðar við ýmis tilfallandi verk, s.s. skýrslugerð, eftirlit og annað sem til fellur og við getur átt. Umsjónarmaður fasteigna er verkstjóra áhaldahúss til aðstoðar eftir því sem verkefnastaða leyfir og leysir verkstjóra af.
Leitað er eftir handlögnum starfsmanni, iðnmenntun er kostur, en reynslu má þó meta til jafns. Viðkomandi þarf að hafa góða tölvukunnáttu. Stór þáttur í starfinu eru mannleg samskipti og þarf viðkomandi að vera samningalipur og samstarfsfús auk þess að búa yfir frumkvæði og geta unnið sjálfstætt.
Aðalbókari/ritari
Laust er til umsóknar starf aðalbókara/ritara á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar.
Aðalbókari/ritari sér um bókanir og afstemmingar bókhalds í samráði við skrifstofustjóra. Hann sér um að vinna upplýsingar úr bókhaldi til stjórnenda og úrvinnslu gagna skv. þörfum. Hann sér um bréfritun og er bæjarstjóra, byggingarfulltrúa og skrifstofustjóra að öðru leyti til aðstoðar í daglegri umsýslu skrifstofunnar. Hann sér um viðhald á heimasíðu bæjarins og aðstoðar við símavörslu og almenna afgreiðslu eftir því sem þörf krefur.
Leitað er eftir öflugum starfskrafti sem hefur frumkvæði, er talnaglöggur, skipulagður og getur unnið sjálfstætt. Hann þarf að hafa góða bókhaldsþekkingu/reynslu og kunnátta á bókhaldsforritið Navision er æskileg. Hann þarf ennfremur að hafa góða tölvukunnáttu, s.s. word og excel, og gott vald á íslenskri tungu.
Laun samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu og Launanefndar sveitarfélaganna.
Nánari upplýsingar um ofangreind störf veitir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri (sími 430 8500).
Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf skulu sendar Grundarfjarðarbæ, Grundargötu 30, 350 Grundarfirði, fyrir 25. maí 2004. Umsóknareyðublöð er hægt að nálgast á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar, www.grundarfjordur.is undir "Stjórnsýsla -Eyðublöð".
Bæjarstjórinn í Grundarfirði