- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í desember sl. auglýsti Grundarfjarðarbær nýtt starf forstöðumanns bókasafns og menningarmála. Bæjarstjórn hefur nú ráðið Láru Lind Jakobsdóttur í starfið.
Forstöðumaður hefur umsjón með starfsemi almenningsbókasafns og menningarhúsa; þ.e. samkomuhúss og Sögumiðstöðvar, en ætlunin er að byggja upp fjölbreyttan stuðning og þjónustu við íbúa, ekki síst nýja íbúa, með upplýsingagjöf og með því að hvetja til viðburða, fræðslu og samveru í menningarhúsum bæjarins. Forstöðumaðurinn er einnig starfsmaður menningarnefndar Grundarfjarðarbæjar.
Lára Lind er fædd og uppalin í Grindavík. Hún hefur undanfarin tvö ár starfað í Kvikunni sem er menningarhús Grindavíkur. Þar tók hún þátt í uppbyggingu menningarstarfs, skipulagningu viðburða, uppsetningu sýninga, vinnslu efnis fyrir samfélagsmiðla og öðrum fjölbreyttum verkefnum. Þar var lögð áhersla á að virkja bæjarbúa, einkum erlenda, í menningarstarfi. Samhliða starfaði Lára Lind einnig í íþróttamannvirkjum bæjarins. Hún hefur einnig starfað á upplýsinga- og markaðssviði hjá Grindavíkurbæ, þar sem hún vann við heimasíðu bæjarins og samfélagsmiðla, setti upp bæjarblaðið og tók þátt í að vinna fjölbreytt markaðsefni fyrir bæinn. Lára Lind hefur ennfremur sinnt skapandi starfi með ungu fólki í félagsmiðstöðinni Þrumunni í Grindavík.
Lára Lind er með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri, hún er lærður ljósmyndari frá Tækniskólanum og með framhaldsnám í tæknilegri ljósmyndun frá Grisart Escuela Barcelona á Spáni. Lára er einnig með diplómu í grafískri miðlun frá Promennt. Hún lauk hljóðtækninámi frá Stúdíó Sýrlandi og Tækniskólanum, lærði förðunarfræði, stundaði teikningu við Myndlistaskólann í Reykjavík og hefur lokið grunnstigsprófi í klassískum píanóleik og rythmískum söng.
Sex umsóknir bárust um starfið, en ein umsókn var dregin til baka. Grundarfjarðarbær fékk Vinnvinn – ráðningar og ráðgjöf, til aðstoðar við ráðningarferlið og úrvinnslu gagna, en þrír bæjarfulltrúar og skrifstofustjóri tóku þátt í ráðningarferlinu.
Lára Lind mun hefja störf þann 1. mars nk. og er hún boðin velkomin til starfa.