- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nýlega fóru fram mælingar á dýpi og þykkt setlaga á sjávarbotni Grundarfjarðar. Mælingarnar og úrvinnsla úr þeim eru liður í undirbúningi vegna mögulegrar efnistöku af sjávarbotni, en Grundarfjarðarhöfn vinnur nú að nýrri umsókn um efnistökuleyfi vegna frekari landfyllinga og hafnarframkvæmda á komandi árum.
Það var Köfunarþjónustan ehf. sem annaðist mælingarnar með fjölgeislamæli og söfnuðust alls rúmlega 6 milljónir mælipunkta. Þeim hefur nú verið raðað í eina samfellda mynd af lögun botnsins og henni komið fyrir í vefsjá bæjarins, ásamt dýpislínum. Dýpið er sýnt með litaskala sem er rauðleitur á grynningum en verður blár þar sem dýpið er meira, rúmlega 20 metrar. Með því að smella á dýpislínurnar á kortinu fást upplýsingar um dýpið þar sem hver lína liggur. Eldra efnistökusvæði á sjávarbotni kemur skýrt fram á botnmyndinni. Dýpið miðast við sjávarborð við stórstraumsfjöru. Það var Alta ehf. sem annaðist gagnavinnslu úr mælingunum og framsetningu upplýsinganna þannig að skoða mætti þær hér í vefsjánni.
Sjá hér hlekk á vefsjána - en haka þarf við línuna "Hafsbotn" og þar undir er hægt að velja botnmynd og dýpislínur. Best er að "súmma vel inn".