- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Menntamálaráðherra mun kynna nýja menntastefnu á fundi í Borgarnesi fimmtudaginn 16. október. Fundurinn hefst klukkan 20:00 og er opinn borgarafundur. Fundurinn verður sendur út með fjarfundarbúnaði til íbúa á Snæfellsnesi í Framhaldsskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Frekari upplýsingar má finna í fréttatilkynningu með því að velja meira.
Fréttatilkynning
Menntamálaráðherra kynnir nýja menntastefnu í Borgarnesi
Menntamálaráðherra mun á næstu vikum fara um landið og kynna nýja menntastefnu og ný lög um þrjú skólastig og menntun kennara. Fundaherferðin hófst með velheppnuðu Menntaþingi í Háskólabíói 12. september sem yfir 800 manns sóttu, hlýddu á kynningar á nýrri stefnu og tóku þátt í líflegum umræðum í málstofum.
Næsti fundur verður haldinn í Menntaskólanum í Borgarnesi fimmtudaginn 16. október frá kl. 20-22. Á fundinum mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, kynna nýja menntastefnu og Arnór Guðmundsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti, kynnir nýja menntalöggjöf nánar. Að erindum loknum verða pallborðsumræður með málshefjendum ásamt Guðna Olgeirssyni og Sölva Sveinssyni, sérfræðingum í menntamálaráðuneyti.
Fundurinn er öllum opinn og vill menntamálaráðuneytið hvetja skólafólk, foreldra, nemendur og annað áhugafólk um skólamál til að mæta og ræða nýja menntalöggjöf sem býður upp á mörg og spennandi tækifæri fyrir íslenskt skólakerfi.
Í nýjum lögum um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda eru margar veigamiklar breytingar sem endurspegla þá stefnu að nemandinn sé í brennidepli í skólastarfinu, faglegt starf kennara verði eflt og áhrif og ábyrgð á námi færð til þeirra sem málið varðar mest. Dæmi um breytingar eru eftirfarandi:
· Áhrif foreldra á starf í leikskólum aukin með stofnun foreldraráða.
· Skólastjórar í leik- og grunnskólum bera nú aukna ábyrgð á samhæfingu sérfræðiþjónustu og gert er ráð fyrir að þjónustan fari í auknum mæli fram innan veggja í skólans.
· Samræmd próf í 10. bekk grunnskóla verða felld niður í núverandi mynd en í staðinn tekin upp könnunarpróf í íslensku, ensku og stærðfræði að hausti í 10. bekk.
· Veitt er heimild til samreksturs, leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla
· Framhaldsskólar fá aukið sjálfstæði til að móta námsframboð og gera tillögur um nýjar námsbrautir. Ekki er lengur miðað við fjórar bóknámsbrautir og starfsnám og bóknám verður jafngilt til stúdentsprófs.
· Menntun kennara verður stórefld og gerð er krafa um að leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar hafi lokið meistaragráðu.
Nánari upplýsingar um nýja menntastefnu og dagskrá haustsins eru á www.nymenntastefna.is.