Á vegum Grundarfjarðarbæjar hefur á liðnu ári verið unnið að stefnumótun í ferðaþjónustu. Verkefnið hófst með því að haldnir voru opnir samráðsfundir með áhugasömum bæjarbúum, ferðaþjónustuaðilum og fleirum. Ráðgjafarfyrirtækið ALTA stýrði fundunum og vann stefnumótunina m.a. úr þeim efnivið sem þannig fékkst, auk þess sem fulltrúar bæjarins og ferðaþjónustuaðilar hafa lagt sitt af mörkum. Bæjarstjórn mun taka stefnumótun til endanlegrar afgreiðslu innan skamms en afrakstur vinnunnar verður kynntur á fundi sem haldinn verður í Sögumiðstöðinni fimmtudaginn 7. maí kl. 20:00.

Leitað verður eftir viðbrögðum og hugmyndum fundarmanna og eru ferðaþjónustuaðilar og annað áhugafólk sérstaklega hvatt til að mæta. Vert er að taka það fram að hugtakið ferðaþjónustuaðili má skilgreina vítt og að fleiri geta talist í ferðaþjónustu en einungis þeir sem eiga dagleg samskipti við ferðamenn. Aukinn fjöldi ferðamanna felur í sér fjölmörg tækifæri til nýsköpunar og sterkari ferðaþjónusta  rennir styrkari stoðum undir þjónustustigið í bænum okkar. 

Markaðsfulltrúi