Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave var haldin um síðustu helgi í Grundarfirði fjórða árið í röð. Fjölmörg verðlaun voru veitt en þó ekki aðeins fyrir stuttmyndir. Á laugardagskvöldið var haldin í annað sinn hin vinsæla fiskisúpukeppni hátíðarinnar í húsi Djúpakletts við Grundarfjarðarhöfn. Hátt í 300 manns mættu, bæði gestir og bæjarbúar, og 8 súpulið kepptu um bestu fiskisúpuna.

Í ár var bætt við að með handverksmarkaði bæði á súpukeppninni og á kvikmyndasýningunum sjálfum. Hrefna Rósa Sætran landsliðskokkur dæmdi í súpukeppninni og veitti 3 viðurkenningar og ein verðlaun fyrir bestu súpuna. Fyrstu verðlaun fékk saumaklúbburinn Samheldni með Lilju Mósesdóttir í fararbroddi ásamt 9 skólasystrum úr Verzlunarskólanum, en Lilja er eini Grundfirðingurinn í hópnum.

Árni Ólafur Ásgeirsson, Kristín Jóhannesdóttir og Romain Gavras sátu í dómnefnd í stuttmynda- og tónlistarmyndbandakeppninni. Romain Gavras stóð fyrir frábærum fyrirlestri sem Vera Sölvadóttir og Logi Hilmarsson stýrðu á laugardeginum. Romain sýndi úr tónlistarmyndböndum sínum og nýjustu mynd sinni “Our day will come” við mikinn fögnuð áhorfenda.


Verðlaunaafhending hátíðarinnar fór svo fram á sunnudeginum, þar sem veitt voru þrenn verðlaun. Veitt voru verðlaun fyrir bestu alþjóðlegu stuttmyndina að upphæð 80.000 kr., bestu íslensku stuttmyndina einnig að upphæð 80.000 kr. og besta íslenska tónlistarmyndbandið, en gogoyoko.com gaf 100 Evra inneign á heimasíðu þeirra í verðlaun og hátíðin gefur 40.000 kr. króna verðlaun.


Besta alþjóðlega myndin af mati dómnefndar var þýska myndinMein Sascha” eftir Markus Kaatsch. Besta íslenska myndin var stuttmyndin “Clean” eftir Ísold Uggadóttur og besta íslenska tónlistarmyndbandið var við lagið “Young Boy” eftir tónlistarmanninn Berndsen, leikstýrt af Helga Jóhannssyni.


Hátíðin hefur nú þegar fengið styrk frá Menningarsjóði Vesturlands fyrir næstu hátíð sem að verður haldin í fimmta sinnið á næsta ári í Grundarfirði.

 

Af vef Northern Wave.