Í dag halda konur víðsvegar um landið kvennafrídag. Þrjátíu ár eru liðin frá Kvennafrídeginum fræga þann 24. október 1975, þegar konur í tugþúsundavís lögðu niður störf. Tilgangurinn þá var að sýna fram á mikilvægt framlag kvenna í atvinnulífinu og samfélaginu í heild. Konur vildu á þeim tíma undirstrika að þær væru ekki varavinnuafl.

 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og margt áunnist. Engu að síður halda konur kvennafrídag í dag, bæði til að minnast þess að 30 ár eru liðin frá deginum fræga og til að vekja athygli á að ýmislegt er enn óunnið. Hver og ein getur í raun gefið sér á hvaða forsendum hún vill halda upp á daginn.

 

Í Grundarfirði munu konur safnast saman og fara gangandi til kaffisamsætis og dagskrár í tilefni dagsins í samkomuhúsinu kl. 14.30 (formleg dagskrá hefst kl. 14.45). Allar konur eru hvattar til að mæta og til að taka mæður sínar, tengdamæður, systur, dætur o.s.frv. með. Karlar eru að sjálfsögðu líka velkomnir.

 

Þó nokkrir vinnuveitendur í bænum hafa að fyrra bragði boðið konum frí frá störfum eftir kl. 14.08 í dag til að sækja dagskrána.

 

Grundarfjarðarbær gefur öllum starfskonum sínum frí eftir kl. 14.00 í dag. Leikskólastjóri hefur haft samband við foreldra allra barna sem að jafnaði eru í skólanum eftir kl. 14 en boðið verður upp á gæslu eftir kl. 14 fyrir þá foreldra sem kjósa, þó ekki verði það með hefðbundnu skipulagi.

 

 

Undirbúningsnefnd óskar konum og körlum til hamingju með daginn!