- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kaupstaðarréttindi Grundarfjarðar
Þann 18. ágúst árið 1786 gaf Danakonungur út tilskipun um að Grundarfjörður, ásamt fimm öðrum verslunarstöðum á Íslandi, yrðu veitt kaupstaðarréttindi.
Þá voru kaupstaðarréttindi veitt Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, Vestmannaeyjum, Reykjavík og Grundarfirði. Hinn síðastnefndi var þá gerður að höfuðstað Vesturamtsins.
Kaupstaðirnir sex áttu að verða miðstöðvar verslunar, útgerðar og iðnaðar hver í sínum landshluta. Auk þess áttu þeir að vera aðsetur ýmissa opinberra embættismanna og stofnana.
Verslunarstaðurinn var þá á Grundarkampi og gerði séra Sæmundur Hólm, prestur á Helgafelli, uppdrátt af lóð kaupstaðarins sem telst vera fyrsti skipulagsuppdrátturinn sem gerður var hér á landi.
Hugmyndirnar um framtíð Grundarfjarðar gengu ekki allar eftir og svo fór að árið 1836 var gefin út tilskipun um að Reykjavík ein væri kaupstaður en hinir staðirnir fimm löggiltir verslunarstaðir. Engu að síður markar þessi dagsetning upphaf mikilla breytinga á Íslandi og er í raun sá dagur sem Grundfirðingar geta nefnt sinn afmælisdag.
Til hamingju með daginn, kæru Grundfirðingar!