- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
HSH stendur fyrir fjölskyldugöngu á Klakkinn í Eyrarsveit í kvöld, fimmtudag 23. júní, kl. 22:00. Gengið verður frá Bárarfossi. Þessi ganga er hluti af verkefni sem UMFÍ stendur fyrir og nefnist ,,Fjölskyldan á fjallið’’. Göngustjóri verður Hallur Pálsson bóndi á Naustum í Eyrarsveit.
Þjóðsagan segir að á Klakkstjörn, efst á fjallinu, fljóti upp óskasteinar á Jónsmessunótt. Ganga á Klakk er í meðallagi erfið og tekur hátt í þrjá klukkutíma með góðri viðdvöl.
Víða í Evrópu er haldið upp á Jónsmessu sem miðsumarshátíð (sbr. leikrit Shakespeares, A Midsummer Night’s Dream – Draumur á Jónsmessunótt). Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu er sumarið ekki hálfnað fyrr en um miðjan júlí og Jónsmessa hefur alla tíð haft á sér aðra mynd á Íslandi en sunnar í Evrópu.
Þrátt fyrir það þykir Jónsmessunótt þó enn með mögnuðustu nóttum ársins, þá yfirleitt tengd náttúrutrú ýmiss konar. Jónsmessunæturdöggin á að vera heilnæm, hvort sem fólk veltir sér upp úr henni nakið eða lætur sér nægja að ganga í henni berfætt. Jónsmessunótt er einnig góður tími til að finna steina með ýmsar heilsusamlegar náttúrur og til að tína grös til lækninga.
Á Vísindavef Háskóla Íslands er að finna þennan og meiri fróðleik um Jónsmessuna.
Þar segir t.d. að Jónsmessan sé fæðingarhátíð Jóhannesar skírara enda séu Jón og Jóhannes tvö afbrigði sama nafns í íslensku. Dagsetningu Jónsmessu má rekja til ákvörðunar Rómarkirkjunnar að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á fornum sólstöðuhátíðum, á stysta og lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar. Á vísindavefnum er að finna skýringu á því að sumarsólhvörf (lengsti dagur ársins) hafði færst fram um þrjá daga m.v. stjarnfræðilegar sólstöður. Jónsmessu ber því ekki upp á lengsta dag ársins fremur en jólin á stysta dag ársins.